Mótmælt sjöunda daginn í röð

Sjö daga í röð hafa þúsund­ir gengið með og á …
Sjö daga í röð hafa þúsund­ir gengið með og á móti innflytjenda­stefnu þýskra stjórn­valda í borg­inni Chemnitz í aust­ur­hluta lands­ins AFP

Átján manns særðust í fjöldamótmælum í þýsku borginni Chemnitz í dag. Þetta er sjöundi dagurinn í röð sem þúsund­ir ganga með og á móti inn­flytj­enda­stefnu þýskra stjórn­valda í borg­inni.

Ítrekað hef­ur komið til átaka á milli þess­ara hópa und­an­farna daga í borg­inni eft­ir að Þjóðverji var stung­inn þar til bana um síðustu helgi. 8.000 manns gengu til að mynda um götur borgarinnar í gær undir merkjum þjóðernisflokksins AfD og PEGIDA-hreyfingarinnar sem berst á móti múslímum. Mun færri, eða um 3.000 talsins,i gengu til stuðnings inn­flytj­enda­stefnu Ang­elu Merkel kansl­ara.

Rekja má mót­mæl­in til þess að aðfaranótt sunnu­dags var 35 ára smiður stung­inn til bana og voru Íraki og Sýr­lend­ing­ur hand­tekn­ir grunaðir um verknaðinn. Eft­ir hand­tök­una gekk æst­ur múgur um göt­ur borg­ar­inn­ar og réðst á þá sem þeir töldu vera út­lend­inga.

Til átaka kom eftir að mótmælagöngunum var formlega lokið í dag þegar upp úr sauð á milli smærri hópa. Þrír lögreglumenn eru meðal hinna særðu.

Þá er lögreglan með 37 mál til rannsóknar sem tengjast líkamlegu ofbeldi, eignaspjöllum og vegna mótmælenda sem neituðu að fara eftir fyrirmælum lögreglu.  

Óeirðarlögregla beið þar sem mótmælagöngunni lauk. Til átaka kom eftir …
Óeirðarlögregla beið þar sem mótmælagöngunni lauk. Til átaka kom eftir að göngunni var lokið. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert