Segja áreitni „faraldur“ hjá McDonald's

Starfsmenn McDonald's segja forsvarsmenn fyrirtækisins gera lítið til að bregaðst …
Starfsmenn McDonald's segja forsvarsmenn fyrirtækisins gera lítið til að bregaðst við kynferðislegri áreitni á vinnustað. AFP

Starfsmenn McDonald's-skyndibitakeðjunnar í 10 borgum í Bandaríkjunum ætla að ganga út úr vinnunni á hádegi í dag til að hvetja fyrirtækið til að bregðast við kvörtunum um kynferðisáreitni á vinnustöðum McDonald's, sem starfsmennirnir lýsa sem faraldri, að því er Guardian greinir frá.

Tanya Harrell er ein þeirra. Hún var að vinna á  McDonald's í Gretna í Louisiana-ríki þegar vinnufélagi tók að áreita hana kynferðislega. Fyrst með óviðeigandi snertingu, með því t.d. að káfa á brjóstum hennar og biðja hana um að snerta typpið á sér. Hún kvartaði til yfirmanns síns sem tók kvörtunina ekki alvarlega, heldur gaf í skyn að þau ættu í sambandi og hún ætti að taka það á „næsta stig“. Hún hagaði sér eins og „lítil stelpa“ og það væri „barnalegt“ af henni að kvarta.

Eftir þetta lokaði annar vinnufélagi hana með sér inni á karlaklósettinu og reyndi að nauðga henni. Hún brast í grát, en var bjargað er yfirmaðurinn hringdi til að ræða við starfsmanninn um önnur mál. Hún tilkynnti aldrei seinna atvikið af því að fyrri kvörtunin féll í svo grýttan jarðveg.

Harrell og hundruð annarra starfsmanna McDonald's ætla að mótmæla fyrir utan veitingastaði skyndibitarisans í dag til að beina athyglinni að kynferðislegu áreiti  og því hversu lítið fyrirtækið geri til að takast á við vandann, en m.a. ætla starfsmenn fyrirtækisins í Miami, New Orleans, Los Angeles og San Francisco á mótmæla.

Adrianna Alvarez, sem hefur unnið hjá McDonald’s í Chicago í níu ár segir vandann vera landlægan og ná raunar yfir heiminn allan.

„Fólk er hrætt. Það óttast að ef það kvarti þá hafi það áhrif á lagalega stöðu þess. Það verði mögulega rekið eða verið refsað á annan hátt,“ segir hún. „Konur reiða sig á þessi störf.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert