„Ég er hinn góði Hitler“

Hitler Alba vonast til að verða áfram bæjarstjóri í Yugar …
Hitler Alba vonast til að verða áfram bæjarstjóri í Yugar í Andesfjöllunum. Kort/Google

Í Perú vonast Hitler til að halda völdum í litlum bæ í Andesfjöllunum, þrátt fyrir að honum stafi ógn af gagnrýnanda að nafni Lennin.

Kosningaauglýsingar með frösum á borð við „Hitler snýr aftur“ og „Hitler með almenningi“ birtast nú víða í bænum Yugar, þar sem stjórnmálamaðurinn Hitler Alba er nú að reyna að endurnýja umboð sitt sem bæjarstjóri.

„Ég er hinn góði Hitler,“ segir Alba í viðtali við útvarpsstöðina RPP og ítrekar að hann hafni öllu því sem nasistinn og einræðisherrann Adolf Hitler stóð fyrir. Sjálfur vilji hann standa fyrir gagnsæi og réttlátri stjórn í landbúnaðarbænum Yungar.

Framboð Albas hefur, að sögn Reuters-fréttastofunnar, engu að síður sætt gagnrýni í ár af hendi Lennin Vladimir Rodriguez Valverde, sem býr í nágrannabæ. Hefur Valverde reynt að hindra framboð Alba. Kjörstjórn hafnaði þeirri beiðni hins vegar og verður nafn Hitlers því á kjörseðlinum.

Í Perú, líkt og víða annars staðar í Suður-Ameríku, velja foreldrar börnum sínum oft erlend og framandi nöfn þrátt fyrir neikvæð tengsl. Þannig var Osama Vinladen til að mynda valinn í unglingalandslið Perú í knattspyrnu í fyrra.

Alba segir föður sinn ekki hafa vitað hver Aldolf Hitler var, er hann skírði hann. Sjálfur íhugaði hann að skipta um nafn er hann komst að því hver Hitler var, en sætti sig síðan við nafnið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert