Örvæntingin skín úr andlitum þeirra

Örvæntingarfullir foreldrar leita barna sinna á svæðum þar sem líkum hefur verið komið fyrir í borginni Palu á indónesísku eyjunni Sulawesi. Einn þeirra sem AFP-fréttastofan ræddi við er búinn að skoða tugi líka þennan daginn. Baharuddin á einn son. Hann sá son sinn síðast þegar hann kyssti hann bless áður en drengurinn fór í skólann á föstudag. Þann dag reið jarðskjálfti, 7,5 stig að stærð, yfir eyjuna og í kjölfarið fylgdi flóðbylgja þar sem ölduhæðin náði allt að sex metrum.

Baharuddin er að leita á opnu svæði bak við heilsugæslustöð í Palu. Þar hefur tugum líka verið komið fyrir undir beru lofti í brakandi heitri hitabeltissólinni. Annars staðar fara fram fjöldaútfarir til að koma í veg fyrir að farsóttir brjótist út í hitanum. 

AFP

Yfir 800 eru látnir og óttast er að talan eigi eftir að hækka hratt. Að jafnvel hafi fleiri þúsund týnt lífi. Lögreglan hefur komið sér fyrir í tjaldi þarna skammt frá þar sem fólk kemur með myndir og leitar ástvina. Þar fyrir utan situr eldri kona, grátandi. 

Einn hinna örvæntingarfullu er Amamsyah. Hann er 28 ára og leitar fjögurra ættingja. „Ég hef komið þrisvar. Á hverjum degi. Ég vonast til þess að finna þau. Ég gefst ekki upp - ég ætla að finna þau.“

En þetta er kapphlaup við klukkuna. Í dag var byrjað að brenna líkin til þess að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma eins og kóleru. Yfirvöld segja að tekin verði fingraför og stafrænar myndir af öllum til þess að tryggja að hægt verði að bera kennsl á fólkið. Að allir þeir látnu fái nafn. En þeir sem leita í örvæntingu segja að þetta sé of skammur tími. 

Björgunarsveitir halda á sama tíma áfram að grafa í húsarústum. Til að mynda er óttast um afdrif 60 hótelgesta á aðeins einu hóteli í Palu. Björgunarmenn heyra barnsgrát úr rústum hótelsins. 

Enn ein nóttin fer að skella á - nótt utandyra undir beru lofti hjá fleiri þúsundum. Fólk sem hefur vart fengið vott né þurrt frá því á föstudag. Á morgun verða birtar nýjar tölulegar upplýsingar um fjölda látinna. Í dag var talan tvöfalt hærri en í gær, fór úr 384 í 832 snemma í morgun að íslenskum tíma.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert