Brexit-samningur 90% tilbúinn

Simon Coveney, utanríkisráðherra Írlands.
Simon Coveney, utanríkisráðherra Írlands. AFP

Samningur á milli Bretlands og Evrópusambandsins um útgöngu landsins úr sambandinu er 90% tilbúinn að sögn Simons Coveney, utanríkisráðherra Írlands. Forystumenn Evrópusambandsins sögðu nýverið að samningur gæti legið fyrir á næstu dögum.

Coveney segir í samtali við sjónvarpsstöðina Sky aðspurður að líkurnar á að samningar takist séu góðar. Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði á dögunum að ef samningar næðust ekki í október yrði það líklega í nóvember. Meirihluti breskra kjósenda samþykkti í þjóðaratkvæði 2016 að yfirgefa sambandið. Tilraunir til þess að semja um útgöngu Bretlands hafa ekki skilað endanlegum árangri enn sem komið er.

„Ég held að möguleikarnir séu góðir vegna þess að ég held að afleiðingarnar þess að ná ekki samningi verði mjög, mjög neikvæðar. Gleymum því ekki að útgöngusamningurinn er 90% tilbúinn hvað varðar texta hans. Málin sem við höfum ekki afgreitt enn snúa að mestu að Írlandi og það sem þarf núna er að samninganefndirnar loki sig inni í herbergi næstu tíu dagana,“ segir Coveney ennfremur í viðtalinu við fréttastofu Sky.

Ráðherrann segir að ríkisstjórn Bretlands þurfi að leggja fram tillögur um það með hvaða hætti megi tryggja að greið viðskipti á milli Írlands og Norður-Írlands, sem tilheyrir Bretlandi, í kjölfar útgöngunnar úr Evrópusambandinu.

„Ég á von á að þetta verði erfitt úrlausnar en þetta er hægt og verður gert,“ segir Coveney ennfremur. Fram kemur í viðtalinu að fulltrúar breskra stjórnvalda hafi einnig lýst yfir bjartsýni um helgina um að hægt verði að semja um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert