Laug til um krabbamein og þáði milljónir

Wieland lýsti reynslu sinni af krabbameininu og meðferðinni á samfélagsmiðlum.
Wieland lýsti reynslu sinni af krabbameininu og meðferðinni á samfélagsmiðlum. Mynd/Skjáskot af Instagram

27 ára áströlsk kona sem þóttist vera með krabbamein í eggjastokkum hefur verið ákærð fyrir að hafa látið safna rúmum átta milljónum fyrir sig í gegnum hópfjármögnunarsíðuna GoFundMe. BBC greinir frá.

Lucy Wieland notaði samfélagsmiðla til að birta myndir og segja frá reynslu sinni af krabbameinsmeðferðinni og óskaði eftir fjárhagsaðstoð frá fylgjendum sínum. Hún var handtekin eftir að lögreglu barst ábending um að hún væri í raun ekki með krabbamein.

Á myndunum sem hún birti virtist hún liggja inni á sjúkrahúsi, notast við súrefnisgrímu og þurfa aðstoð við að ganga.

Ekki liggur fyrr hvort kærasti Wieland, sem er með henni á nokkrum myndanna, vissi af lygum hennar eða hvort hún þjáist af einhverjum öðrum sjúkdómi.

Lögregluvarðstjóri sagði í samtali við fréttamenn fyrir utan dómshúsið í Queensland í dag að málið væri hið sorglegasta. Hin raunverulegu fórnarlömb væru fólkið sem heyrði til Wieland og vildi leggja sitt af mörkum til að hjálpa.

Hann sagði grunsemdir hafa vaknað um að ekki væri allt með felldu þegar ábending barst um að eitthvað í sögu Wieland gengi ekki upp og leiddi það til rannsóknar málsins. Fjármögnunarsíðan GoFundMe hefur lýst því yfir að hún geri allt til að aðstoða við rannsóknina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert