Hafa fundið stóran hluta höfuðkúpu Luziu

Brot úr höfuðkúpu Luziu.
Brot úr höfuðkúpu Luziu. AFP

Meirihluti höfuðkúpu 12 þúsund ára beinagrindar konu sem var meðal muna á þjóðminjasafni Brasilíu, sem varð eldi að bráð í september, hefur fundist í rústum safnsins og talið er að hægt verði að setja hana aftur saman. Yfirmaður safnsins telur að um 80 prósent af höfuðkúpunni hafi fundist og gerir ráð fyrir því að hægt verði að finna restina. BBC greinir frá.

Beinagrindin er kölluð Luzia, en hún er sú elsta sem hefur fundist í Ameríku og var höfuðdjásn safnsins. Höfuðkúpan var geymd í stálboxi í eldvarnarskáp.

Auk Luziu voru egypsk­ir og grísk-róm­versk­ir list­mun­ir úr forn­öld meðal muna á safninu. Einnig var þar stærsti loft­steinn sem hef­ur upp­götv­ast í Bras­il­íu, 5,3 tonna þung­ur, og beina­grind risaeðlu.

Muni sem spanna fjög­urra alda tíma­bil, allt frá því Portú­gal­ar komu til lands­ins á 14. öld þar til bras­il­íska lýðveldið var stofnað 1889, var þar einnig að finna, en portú­galska kon­ungs­fjöl­skyld­an bjó eitt sinn í hús­inu. 90 prósent af munum safnsins eyðilögðust í eldsvoðanum, en yfirmenn safnsins hafa kennt fjársvelti um það hvernig fór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert