Ginsburg rifbeinsbrotin á spítala

Ruth Bader Ginsburg er 85 ára gömul. Hún féll á …
Ruth Bader Ginsburg er 85 ára gömul. Hún féll á skrifstofu sinni í gærkvöldi, braut þrjú rifbein og er nú á spítala. AFP

Bandaríski hæstaréttardómarinn Ruth Bader Ginsburg var lögð inn á spítala í morgun, eftir að hún féll á skrifstofu sinni í gærkvöldi. Ginsburg, sem er 85 ára gömul, er með þrjú brotin rifbein eftir fallið, samkvæmt yfirlýsingu frá talskonu hennar.

Ginsburg var skipuð í Hæstarétt Bandaríkjanna árið 1993 og er elsti dómarinn við réttinn. New York Times fjallar um meiðsli hennar og segir að sjúkrasaga hennar bendi ekki til þess að hún láti rifbeinsbrotið hafa áhrif á vinnu sína. Hún braut tvö rifbein árið 2012 og missti þá ekkert úr vinnu og sneri hratt til baka árið 2012 eftir að hafa undirgengist hjartaaðgerð. Þá hefur hún einnig greinst með krabbamein og sneri til vinnu þremur vikum eftir að meinið var skorið í burtu.

Þrátt fyrir að Ginsburg hafi venjulega snúið hratt til starfa á ný, hafa fregnir af rifbeinsbrotum hennar skotið frjálslyndum Bandaríkjamönnum skelk í bringu og vakið upp vangaveltur um það hversu lengi til viðbótar hún geti setið á dómarastóli, en Ginsburg er í hópi frjálslyndari dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur þegar náð að skipa tvo íhaldssama dómara í Hæstaréttinn og væri það eitur í beinum demókrata vestanhafs ef að svo færi að Ginsburg yrði að láta af störfum á meðan Trump situr í Hvíta húsinu. Sjálf hefur hún sagst ætla að sitja við réttinn eins lengi og heilsa hennar leyfi.

Ginsburg ásamt öðrum dómurum við Hæstarétt Bandaríkjanna og Donald Trump …
Ginsburg ásamt öðrum dómurum við Hæstarétt Bandaríkjanna og Donald Trump við innsetningarathöfn Brett Kavanaughs. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert