„Af hverju skiljið þið okkur ekki?“

Vladimir Putin Rússlandsforseti og Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, ræddu stuttlega …
Vladimir Putin Rússlandsforseti og Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, ræddu stuttlega um meint afskipti Rússa af forsetakosningunum árið 2016 á fundi í Singapúr í síðustu viku. AFP

Vladimir Pútín, forseti Rússlands, þvertekur fyrir að Rússar hafi átt afskipti af forsetakosningunum í Bandaríkjunum 2016. Þetta kom fram í máli hans þegar hann fundaði stuttlega með Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, í síðustu viku þegar þeir sátu fund Samtaka ríkja í Suðaustur-Asíu (ASEAN).

Dmitry Peskov, talsmaður rússneskra stjórnvalda, greindi frá þessu í sjónvarpsviðtali í rússneskum fjölmiðlum og sagði hann Pútín og Pence hafa rætt saman í um tíu mínútur.

„Bandaríkjamenn eru sífellt að tönnlast á afskiptum af kosningunum eins og möntru,“ sagði Peskov, og bætti við að Rússar kyrji því sína eigin möntru á móti. „Af hverju skiljið þið okkur ekki? Hvernig getum við komið ykkur í skilning um að við höfum ekkert að gera með afskipti af ykkar innanríkismálum eða kosningum?“ Peskov sagði að Pence hefði fengið þessi sömu skilaboð eftir spjall sitt við Pútín.

Rússar hafa verið sakaðir um að hafa afskipti af forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2016 og leiðir Robert Mu­ell­er, sér­stak­ur sak­sókn­ari, rannsókn þar sem meðal annars er kannað hvort rússnesk stjórnvöld hafi verið í leyni­makki með þeim sem störfuðu við kosn­inga­her­ferð Trump.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur margoft gagnrýnt rannsóknina og sagði í síðustu viku að um þjóðarskömm væri að ræða.

Pútín og Trump munu hittast á fundi G20 ríkjanna síðar í þessum mánuði.

mbl.is