Löfven fær annað tækifæri

Stefan Löfven, starfandi forsætisráðherra Svíþjóðar.
Stefan Löfven, starfandi forsætisráðherra Svíþjóðar. AFP

Leiðtogi Sósíaldemókrataflokksins í Svíþjóð, Stefan Löfven, hefur fengið annað tækifæri til að mynda ríkisstjórn í landinu eftir að leiðtogum Miðflokksins og hægriflokksins Moderaterna mistókst að mynda stjórn eftir þingkosningarnar í landinu.  

Andreas Norlén, forseti sænska þingsins, ákvað að leita aftur til Löfven, sem er starfandi forsætisráðherra, eftir að Annie Lööf, formanni Miðflokksins, og Ulf Kristersson, leiðtoga Moderaterna, mistókst ætlunarverk sitt. Áður hafði Löfven ekki heldur tekist að mynda ríkisstjórn.

Lööf tilkynnti í gær að hún hefði gefist upp á stjórnarmyndunartilraunum og skilað umboði til þess en þingkosningarnar í landinu fóru fram 9. september.

„Það er kominn tími til að þessu ástandi ljúki,“ sagði Norlén í dag og kvaðst vonast til þess að nýr forsætisráðherra verði skipaður áður en greidd verða atkvæði á þinginu um fjárlög landsins 12. desember.

Í Svíþjóð fær forseti þingsins fjórar tilraunir til að veita umboð til að mynda ríkisstjórn sem þingið þarf svo að samþykkja. Ef allar fjórar tilraunirnar mistakast þarf að halda nýjar kosningar.

Andreas Norlén, forseti sænska þingsins.
Andreas Norlén, forseti sænska þingsins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert