Heimila flutning særðra frá Jemen

Særðir Jemenar mótmæla fyrir framan höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í Sanaa …
Særðir Jemenar mótmæla fyrir framan höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í Sanaa nýverið. AFP

Fimmtíu særðir liðsmenn húta verða í dag fluttir frá Sanaa, höfuðborg Jemen, og til borgarinnar Múskat í nágrannaríkinu Óman. Vopnaðar sveitir húta, sem eiga rætur að rekja til norðurhluta Jemen, hafa nú í mörg ár barist við stjórnarher landsins um yfirráð. 

Sádi-Arabar, sem leiða bandalag þjóða sem berjast við hlið stjórnarhersins í landinu, hafa gefið leyfi fyrir brottflutningi hinna særðu svo þeir megi fá læknisaðstoð í Óman. Segja Sádar að með þessu vilji þeir byggja upp traust milli stríðandi fylkinga en friðarviðræður eru fyrirhugaðar í Svíþjóð. 

Sameinuðu þjóðirnar munu sjá um flutning hinna særðu til Múskat. Talið er að hér sé um fyrstu skref að ræða í friðarviðræðunum fram undan en þeim hefur nokkrum sinnum verið frestað. Alþjóðasamfélagið þrýstir nú á það af miklum þunga að endir verði bundinn á stríðið í Jemen sem staðið hefur í fjögur ár. Átökin hafa orðið til þess að Jemenar eru nú á barmi hungursneyðar og sjúkrahús eru full af vannærðum börnum við dauðans dyr.

Stríðinu í Jemen mótmælt í Líbanon.
Stríðinu í Jemen mótmælt í Líbanon. AFP

Flugvél frá Sameinuðu þjóðunum mun koma til Sanaa í dag og flytja hina særðu húta. Þrír læknar frá Jemen munu fylgja þeim, að því er talsmaður bandalagsríkjanna í stríðinu hefur tilkynnt.

Sendinefnd Sameinuðu þjóða fór fram á það við hernaðarbandalagið að brottflutningurinn yrði leyfður af mannúðarástæðum. Hútar hafa ekki brugðist við þessum ráðahag og Sameinuðu þjóðirnar hafa enn ekki tjáð sig um málið. Mögulegt er að beðið verði með yfirlýsingar þar til flutningurinn er afstaðinn.

Vonir standa til þess að fulltrúar húta, hernaðarbandalagsins og stjórnvalda í Jemen muni setjast að friðarviðræðum í Svíþjóð í þessari viku. Hútar hafa sagst viljugir að taka þátt í viðræðunum verði öryggi þeirra tryggt.

Áður stóð til að viðræðurnar myndu fara fram í Genf í september en hútar hættu við á síðustu stundu þar sem þeir töldu Sameinuðu þjóðirnar ekki geta tryggt öryggi þeirra frá höfuðborginni Sanaa sem hefur verið á þeirra valdi. Þá kröfðust þeir þess að heimilað yrði að koma særðum stríðsmönnum þeirra til Óman.

Sendinefnd Sameinuðu þjóðanna, sem fór um Jemen í síðustu viku, sagði að meiri háttar hörmungar væru þar handan við hornið.

Að undanförnu hefur harðast verið barist við hafnarborgina Hodeida en borgin sú er mikilvæg fyrir flutning hjálpargagna og fleiri nauðsynjavara til landsins. Stjórnarherinn lét að mestu af áhlaupi sínu á borgina nýverið eftir gríðarlegan þrýsting frá alþjóðasamfélaginu. Samið var um vopnahlé um miðjan nóvember en átök hafa þó haldið áfram.

Sameinuðu þjóðirnar segja að hvergi í heiminum sé ástandið jafn slæmt fyrir almenning og í Jemen. Yfir 10 þúsund manns hafa fallið í átökum frá árinu 2015. Mannréttindasamtök telja að mannfallið sé í raun mikið meira.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert