„Kvenlíkaminn er vígvöllur“ – Friðarverðlaunahafarnir komnir til Óslóar

Nadia Murad og Denis Mukwege, handhafar friðarverðlauna Nóbels árið 2018, …
Nadia Murad og Denis Mukwege, handhafar friðarverðlauna Nóbels árið 2018, á blaðamannafundi í Ósló í dag. AFP

Kongóski læknirinn Denis Mukwege og íraski mannréttindaaðgerðasinninn Nadia Murad Basee Taha, sem deila með sér friðarverðlaunum Nóbels í ár, komu til Óslóar í dag með viðhöfn og tók mannfjöldi á móti þeim í miðborginni. Sjálf verðlaunin verða veitt við athöfn í Ráðhúsi Óslóar á morgun, 10. desember, á dánardægri sænska uppfinningamannsins, efna- og verkfræðingsins Alfred Nobel árið 1896.

Mukwege og Murad hljóta verðlaunin fyrir baráttu sína gegn kynferðislegu ofbeldi sem vopni á átakasvæðum og hafa hvor tveggju hlotið verðskuldaða athygli fyrir baráttu sína á þeim vettvangi en Mukwege hefur í starfi sínu á Panzi-sjúkrahúsinu í Bukavu í Kongó sérhæft sig í meðhöndlun kvenna sem sætt hafa nauðgunum og öðru kynferðisofbeldi á stríðshrjáðum svæðum og þykir árangur hans á því sviði einstakur en Mukwege hefur meðhöndlað þar um 3.600 konur á ári og starfað á sjúkrahúsinu í tvo áratugi.

Nadia Murad á sér ótrúlega sögu en hún er íraskur kúrdi sem barist hefur fyrir mannréttindum í Írak um árabil. Í ágúst 2014 rændu liðsmenn Ríkis íslams henni í Norður-Írak og mátti hún sæta hrottalegri meðferð í haldi samtakanna. Henni tókst að flýja í nóvember og með aðstoð fjölskyldu á hverrar náðir hún leitaði tókst að smygla henni út af áhrifasvæði Ríkis íslams. Murad sagði belgískum blaðamönnum sögu sína í Rwanga-flóttamannabúðunum í febrúar 2015 og var síðar það ár í hópi þúsund kvenna og barna sem skotið var skjólshúsi yfir með flóttamannaáætlun Þjóðverja og auðnaðist henni þá búseta í Baden-Württemberg þar í landi sem nú er heimili hennar.

Í október í fyrra kom bókin Síðasta stúlkan, The Last Girl, út þar sem Nadia Murad greindi frá hremmingum sínum og reynslu en það var tyrknesk-kúrdíska blaðakonan Jenna Krajeski sem færði bókina í letur með samtölum sínum við Murad.

„Kvenlíkaminn er vígvöllur“

„Búið er að gera kvenlíkamann að vígvelli, við getum ekki sætt okkur við slíkt ástand nú til dags, við verðum að grípa til aðgerða til að stöðva slíkt ofbeldi,“ sagði dr. Mukwege á blaðamannafundi í Ósló í dag og dró ekki fjöður yfir skoðun sína á því hrottalega ofbeldi sem konur víða um heim sæta á átakasvæðum, en það er langt í frá bundið við Kongó.

Lækninum mannréttindasinnaða er reyndar í nöp við fleira en kynferðislegt ofbeldi því hann eyddi nokkru púðri í að úthúða rafmagnsbílum, farsímum og fleiri framleiðsluvörum sem styðjast við steinefni úr kongóskum jarðvegi.

„Stríðið í Kongó er ekki kynþáttastríð eða trúarstríð. Það er stríð um auðlindir landsins og þær auðlindir eru notaðar um allan heim,“ sagði læknirinn á blaðamannafundinum í dag.

Murad og Mukwege hljóta friðarverðlaunin við athöfn sem hefst í Ráðhúsi Óslóar klukkan 13:00 á morgun, 12:00 að íslenskum tíma.

Fréttir norskra fjölmiðla af friðarverðlaunahöfunum:

Frá NRK

Frá VG

Frá TV2

Frá Aftenposten

Frá Dagbladet

mbl.is