May varar við áhrifum höfnunar

Nú þegar tveir dagar eru þar til breska þingið mun kjósa um hinn umdeilda útgöngusamning Breta úr Evrópusambandinu varar forsætisráðherrann þingmenn við því að hafni þeir samningnum leggi þeir inn á „ókannaðar slóðir“.

Þetta segir Theresa May í samtali við dagblaðið Mail on Sunday. Í viðtalinu segir hún af höfnun samningsins myndi þýða mikla óvissu fyrir Bretland. Hún varar þingmenn við því að gjörðir þeirra gætu orðið til þess að kalla á þingkosningar og að það myndi auka hættuna á því að ekkert yrði af Brexit, útgöngu þeirra úr ESB.

Spennan magnast. Breska þingið mun kjósa um Brexit-samninginn í vikunni.
Spennan magnast. Breska þingið mun kjósa um Brexit-samninginn í vikunni. AFP

Skrifstofa May hefur neitað sögusögnum þess efnis að hún ætli að fresta atkvæðagreiðslunni. „Það verður kosið,“ segir talsmaður skrifstofunnar.

Í síðasta mánuði var samningur May um útgönguna samþykktur af Evrópusambandinu. Hann á hins vegar enn eftir að leggja fram til samþykktar á þinginu.

Margir þingmenn úr röðum ýmissa flokka segjast ekki ætla að samþykkja samninginn og í frétt BBC segir að þar með sé ólíklegt að hann hljóti meirihluta atkvæða. Ef þingið hafnar samningnum er óvíst hvað gerist næst. 

May heldur áfram að ítreka þá skoðun sína að þessi samningur sé sá besti sem Bretar geta fengið. 

Í frétt Sunday Times í dag segir að einhverjir ráðherrar og aðstoðarmenn May séu í hópi þeirra sem hafa sagt henni að hún verði að tryggja frekari ívilnanir frá stjórn Evrópusambandsins ef hún vilji vinna gagnrýnendur samningsins á sitt band. Í The Sun on Sunday er því haldið fram að hún muni ákveða á morgun hvort hún haldi áætlunum sínum um að leggja samninginn fram óbreyttan til streitu. Þessu hafnar eins og fyrr segir skrifstofa forsætisráðherrans. 

Frétt BBC

Theresa May forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May forsætisráðherra Bretlands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert