„Hann á að þekkja lögin“

Trump segir Cohen einungis hafa gengist við sökum um kosningalagabrot …
Trump segir Cohen einungis hafa gengist við sökum um kosningalagabrot til að koma höggi á forsetann. AFP

„Ég fyrirskipaði Michael Cohen aldrei að brjóta lögin. Hann var lögfræðingur og hann á að þekkja lögin.“ Þetta skrifar Donald Trump Bandaríkjaforseti á Twitter í dag. Fyrrverandi lögmaður hans, Cohen, var dæmdur í þriggja ára fangelsi í gær, meðal annars fyrir skattsvik og brot á kosningalögum.

Áður en dóm­ur­inn var kveðinn upp gagn­rýndi hann for­set­ann harðlega. Hann sagðist bera ábyrgð á glæp­um sín­um „þar á meðal þeim sem for­seti Banda­ríkj­anna hef­ur verið bendlaður við. Það var skylda mín að hylma yfir með hans sóðal­egu verknuðum,“ sagði Cohen.

Trump segir að starf Cohen hafi verið að veita lagalega ráðgjöf og á ábyrgð lögmanna væri mikil ef mistök væru gerð. „Þess vegna fá þeir borgað.“

Forsetinn segist ekki hafa brotið kosningalög, enda hafi málin ekki snúið að fjáröflun fyrir kosningabaráttu og að lögfræðingar séu sammála honum. Trump segir Cohen hafa gerst sekan um fjölmörg mál ótengd sér, en að hann hafi játað sekt í tveimur ákæruliðum vegna brota á kosningalögum í þeim tilgangi að koma höggi á forsetann.

„Hann gekkst við þessum sökum einungis til að koma forsetanum í vandræði og til að fá vægari fangelsisdóm.“
mbl.is