Dróni veldur skemmdum á farþegaþotu

Líkt og sjá má urðu töluverðar skemmdir á nefi vélarinnar.
Líkt og sjá má urðu töluverðar skemmdir á nefi vélarinnar. Ljósmynd/AFAC Aviacao

Flugfélagið Grupo Aeromexico SAB rannsakar nú hvort að dróni hafi valdið töluverðum skemmdum á einni Boeing 737 farþegaþotu félagsins er hún var að koma inn til lendingar í mexíkósku borginni Tijuana, sem er nærri landamærum Bandaríkjanna.

Bloomberg fréttaveitan segir mexíkóska fjölmiðla hafa birt myndir af umtalsverðum skemmdum á nefi þotunnar, sem var að koma frá Guadalajara.  Í upptökum úr flugrita vélarinnar heyrist áhöfnin segjast hafa heyrt „verulega háan hvell“ og því næst biður hún starfsmenn flugturnsins um að athuga hvort að nef flugvélarinnar sé skaddað. Áreksturinn átti sér stað stuttu fyrir lendingu.

„Nákvæm ástæða er enn til rannsóknar,“ segir í yfirlýsingu frá Aeromexico um atvikið, en tekið er fram að farþegaþotunni hafi verið lent án vandræða og öryggi farþega hafi aldrei verið í hættu.

Bloomberg segir þennan mögulega drónaárekstur hafa vakið áhyggjur hjá mörgum af að ómönnuð loftför geti stofnað flugöryggi farþega í hættu. Þó að flest ríki banni drónum að fljúga á leiðum sem sérstaklega eru ætlaðar fyrir flugumferð þá er ómögulegt að nota radar til að fylgjast með þeim milljónum lítilla dróna sem í notkun eru hjá almenningi víða um heim. Aukinheldur eru mörgum drónaeigendum ekki kunnugt um reglurnar eða fylgja þeim ekki.

Bandaríska loftferðaeftirlitið (FAA) segir skráðum tilvikum í öryggisskýrslum farþegaflugvéla þar sem drónar koma við sögu hafa aukist verulega undanfarið ár. Atvik sem fest var á myndband og sýndi dróna flogið í nokkurra metra fjarlægð frá flugvél í nágrenni Las Vegas varð þá til þess að bandarísk stjórnvöld hertu reglur um drónaflug.

Segir FAA 6.000 tilkynningar um dróna hafa borist frá flugmönnum á fyrstu sex mánuðum þessa árs.

mbl.is
Patrol 2006
Til sölu Nissan Patrol 2006 ekinn 186.000. Einn eigandi, gott viðhald, skoðaður ...
Til sölu eldhúsborð
Til sölu massíft hvíbæsað furueldhúsborð. Einnig hentugt í sumarbústaði. Lengd...
Greinakurlari
Greinakurlari sem drifinn er með bensínmótor. Öflugur og meðfærilegur kurlari w...
HARMONIKKUHURÐIR SPARA MIKIÐ PLÁSS
Margar viðartegundir og litir, smíðað eftir máli. Verð frá kr. 13.900,- Sími 61...