Máttu ekki kalla látinn mann draug

Tveir þáttastjórnenda Ríkis andanna þar sem nafngreindur látinn maður var …
Tveir þáttastjórnenda Ríkis andanna þar sem nafngreindur látinn maður var kallaður draugur í þætti á dagskrá TV Norge 23. september í haust. Hlutu þáttastjórnendur áfellisdóm siðanefndar norska blaðamannafélagsins fyrir vikið, ekki í fyrsta sinn. Ljósmynd/Facebook-síða Ríkis andanna

Stjórnendur þáttarins Ríki andanna (n. Åndenes makt), sem norska sjónvarpsstöðin TV Norge heldur úti, teljast samkvæmt úrskurði siðanefndar norska blaðamannafélagsins, PFU, Pressens faglige utvalg, hafa brotið gegn tveimur reglum Gættu að-plakatsins (n. Vær varsom plakaten), siðareglum norskra blaðamanna.

Stjórnendur þáttarins, sem fjallar, eins og nafnið gefur til kynna, um andleg málefni og tilvist framliðinna hérna megin grafar, teljast samkvæmt úrskurði siðanefndarinnar, sem féll í gær, hafa brotið gegn greinum 4.1 og 4.3 á Gættu að-plakatinu þar sem mælt er fyrir um að blaðamaður skuli vera málefna- og tillitssamur í umfjöllun sinni (grein 4.1) og virða í hvívetna einkenni, persónu, einkalíf, kynþátt, þjóðerni og lífssýn umfjöllunarandlagsins (grein 4.3) nema einhver þessara þátta sé beinlínis efni fréttar eða umfjöllunar.

Átti hund þegar hann var yngri

Mál það sem hér kom til kvörtunar og umfjöllunar hjá siðanefndinni hófst með því að talið var að reimt væri í húsi nokkru, byggðu 1930, í Þrændalögum við vesturströnd Noregs og leituðu eigendur hússins, skotfimifélag staðarins, til stjórnenda Ríkis andanna sem þegar kölluðu til miðilinn Michael Winger sem að mati þáttastjórnenda var gæddur ófreskigáfum.

Miðillinn tók þegar til starfa og var afrakstur vinnu hans sýndur í Ríki andanna 23. september. Kvaðst Winger þar finna lykt af „gamalmennasvita“ auk þess sem honum hefði birst maður í húsinu. Sá hefði verið hávaxinn, grannur, stuttklipptur, átt hund þegar hann var yngri og heitið eitthvað sem byrjaði á bókstafnum A eða I.

Kastaði miðillinn fram nokkrum nöfnum og reyndist eitt þeirra nafn látins frænda Karin F. Bjørklund sem síðar kærði málið til siðanefndar blaðamannafélagsins.

Gramdist Bjørklund það gróflega að þáttastjórnendur og miðillinn Winger vísuðu stöðugt til frænda hennar sáluga sem draugsins (n. spøkelset) og skrifaði í kæru sinni til nefndarinnar að umfjöllun þáttarins væri „fullkomlega út í hött og ættingjum [hins látna] íþyngjandi“.

Höfðu kallað annan aðila „pirrandi draug“

Nefndin féllst á sjónarmið kæranda og taldi það ámælisvert að stjórnendur þáttarins hefðu ekki haft samband við ættingja hins látna áður en þeir fjölluðu um hann, nafngreindu hann og héldu því að lokum fram að hann gengi aftur og ræddu um hann sem „draug“.

Taldi nefndin þáttastjórnendur hafa brotið gegn áðurnefndum greinum 4.1 og 4.3 Gættu að-plakatsins og að sú orðanotkun þeirra að kalla nafngreindan ættingja lifandi fólks draug og gefa í skyn að hann gengi aftur ljósum logum væri sérstaklega þungbær í garð ættingjanna og til þess eins fallin að valda þeim vanlíðan.

Þá þótti það ekki málstað þáttastjórnenda Ríkis andanna til framdráttar að hafa fengið yfir sig annan áfellisdóm sömu nefndar fyrir fimm árum þegar þeir fjölluðu um aðra látna persónu sem „pirrandi draug“ (n. plagsom spøkelse).

Stjórnendur Ríkis andanna sögðust í greinargerð til siðanefndar ekki hafa brotið af sér svo nokkru næmi en þeim væri hvort tveggja ljúft og skylt að afmá nafn „draugsins“ í endursýningum þáttarins í framtíðinni.

Umfjöllun norskra miðla um málið:

NRK

Aftenposten

Kampanje

Dagbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert