Sleppt úr haldi vegna drónaflugs

Loka hefur þurft Gatwick-flugvelli vegna drónaflugs við hann. Karli og …
Loka hefur þurft Gatwick-flugvelli vegna drónaflugs við hann. Karli og konu sem voru handtekin hefur nú verið sleppt úr haldi. AFP

Karli og konu sem handtekin voru í gær vegna rannsóknar í tengslum við drónaflug við Gatwick-flugvöll í London hefur verið sleppt úr haldi. Drónaflugið varð þess valdandi að mikil truflun varð á flugumferð um völlinn og honum þurfti að loka. Maðurinn, 47 ára gamall og konan, 54 ára, eru úr bænum Carwley nærri flugvellinum.

„Bæði sýndu þau samstarfsvilja og ég er ánægður með að þau séu ekki lengur grunuð í tengslum við rannsóknina á drónafluginu,“ sagði lögreglustjórinn Jason Tingley í yfirlýsingu vegna málsins. 

Drónar sáust á lofti við flugvöllinn í um fimmtíu aðgreindum tilvikum og var sérsveit breska hersins m.a. kölluð til hjálpar. Mikil hætta stafar af drónum við flugvelli enda vegna möguleika á því að þeir festist í hreyflum farþegaflugvéla og liþíum-batterí þeirra springi.

„Rannsóknin heldur áfram og við leitum þeirra sem bera ábyrgð á drónafluginu,“ sagði Tingley. „Við óskum aðstoðar almennings áfram og ábendinga um grunsamlega hegðun,“ sagði hann.

Gatwick-flugvöllur hefur boðið 50 þúsund evrur þeim fyrir upplýsingar sem leiða til handtöku og sakfellingar þeirra sem standa að baki fluginu. 

Nýleg löggjöf í Bretlandi bannar drónaflug nærri flugvélum og innan kílómeters fjarlægðar frá flugvöllum eða í yfir 122 metra hæð. Viðurlögin eru allt að fimm ára fangelsisdómur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert