Segir stefnu Norður-Kóreu geta breyst

Kim Jong-un, leiðtogi N-Kóreu.
Kim Jong-un, leiðtogi N-Kóreu. AFP

Kim Jong-un leiðtogi Norður-Kóreu sagði í nýársávarpi sínu að hann væri staðfastur um að standa við kjarnorkuafvæðingu, en að sú stefna gæti hæglega breyst ef Bandaríkin halda áfram viðskiptaþvingunum sínum gegn landinu.

Í ávarpinu, sem Jong-un flutti í morgun, sagði hann að ef Bandaríkin myndu ekki aflétta viðskiptaþvingunum sínum væri ekkert annað í stöðunni fyrir Norður-Kóreu nema að íhuga aðrar leiðir en kjarnorkuafvæðingu til að tryggja öryggi, fullveldi og hagsmuni ríkisins.

Fréttaritari BBC í Suður-Kóreu segir að þessi ummæli Jong-un geti þýtt að Norður-Kórea bíði þess nú að Bandaríkin dragi úr viðskiptahömlum, en að öðrum kosti hefji Norður-Kórea flugskeytatilraunir sínar að nýju.

Norður-Kórea stundaði tilraunaskot og kjarnorkuvopnatilraunir árið 2017 sem urðu til þess að Donald Trump Bandaríkjaforseti og Jong-un hittust í júní 2018 og sömdu meðal annars um kjarnorkuafvæðingu Norður-Kóreu. Lítið hefur þó miðað áfram síðan þá.

Norður-Kórea hefur þurft að hlíta viðskiptabanni sem samþykkt var af öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í tengslum við kjarnorkuvopnatilraunir sínar.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert