Repúblikanar mótfallnir neyðarástandi

Fulltrúardeildarþingmaðurinn Steve Scalise á milli Donalds Trumps Bandaríkjaforseta og Mike …
Fulltrúardeildarþingmaðurinn Steve Scalise á milli Donalds Trumps Bandaríkjaforseta og Mike Pence varaforseta. Scalise er meðal áhrifamanna í Repúblikanaflokknum sem eru mótfallnir því að Trump lýsi yfir neyðarástandi á landsvísu til að tryggja að landamæramúr verði reistur á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. AFP

Háttsettir þingmenn Repúblikanaflokksins eru mótfallnir því að Donald Trump Bandaríkjaforseti lýsi yfir neyðarástandi á landsvísu svo hann geti kom­ist fram hjá Banda­ríkjaþingi og fengið það fé sem hann þarf til að reisa landamæramúr­inn um­deilda, sem var eitt af helstu kosn­ingalof­orðum hans.

Um fjórðungur bandarískra ríkisstofnana hefur verið lokaður í rúmlega þrjár vikur þar sem Trump hef­ur neitað að skrifa und­ir fjár­lög árs­ins nema þar verði sett sér­stakt fjár­magn til að reisa múr á landa­mær­um Banda­ríkj­anna að Mexí­kó. Demó­krat­ar á Banda­ríkjaþingi hafa hins veg­ar hafnað beiðni for­set­ans, en múr­inn er sagður kosta um 5,7 millj­arða dala, sem sam­svar­ar um 680 millj­örðum ís­lenskra króna. Lokunin hefur áhrif á um 800.000 rík­is­starfs­menn sem hafa ekki fengið greidd laun.

Öldungadeildarþingmaðurinn Ron Johnson, sem er formaður heimavarnarnefndar þingsins (e. Homeland Security Committe) segir í samtali við CNN að hann yrði ekki hrifinn ef Trump kysi að lýsa yfir neyðarástandi. „Ef það verður niðurstaðan fer það fyrir rétt og múrinn verður ekki reistur,“ segir Johnson.

Steve Scalise fulltrúardeildarþingmaður tekur í sama streng, þrátt fyrir að hann véfengi ekki vald Trumps til að lýsa yfir neyðarástandi.

Trump hefur lýst því yfir að yf­ir­lýs­ing um neyðarástand væri „auðveld leið út úr þessu“ en segir að hann vilji frem­ur að þingið finni lausn á vanda­mál­inu. Í færslu á Twitter í dag segir hann að skaðinn sem rekja megi til ótryggra landamæra, það er útbreiðsla eiturlyfja, glæpir og „mjög margt sem er slæmt“ sé mun verra en lokun alríkisstofnana. Segir Trump að því geti demókratar kippt í liðinn þegar þeir komi snúi aftur til Washington.


Banda­rísk­ar rík­is­stofn­an­ir hafa aldrei verið lokaðar jafn lengi og nú, …
Banda­rísk­ar rík­is­stofn­an­ir hafa aldrei verið lokaðar jafn lengi og nú, eða í um þrjár vik­ur, og því mótmæla Bandaríkjamenn harðlega. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert