Er stjórnarkreppan að leysast?

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar.
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar. AFP

Líkur eru á að samkomulag náist um forsætisráðherra Svíþjóðar í dag en talið er líklegt að Vinstriflokkurinn ætli að styðja minnihlutaríkisstjórn Jafnaðarmannaflokksins og Græningja.

Þetta mun hins vegar ekki ráðast opinberlega fyrr en síðar í dag þegar Andreas Norlén, forseti sænska þingsins, mun leggja til að greidd verði atkvæði um næsta forsætisráðherra landsins.

Á föstudag náðist samkomulag milli fjögurra flokka um að Stefan Löfven, formaður Jafnaðarmannaflokksins, verði áfram forsætisráðherra og að sömu flokkar myndi ríkisstjórn nú með stuðningi Miðflokksins og Frjálslynda flokksins. Flokkarnir hafa verið í stjórnarandstöðu undanfarin ár en ákváðu á fundi sínum á föstudag að styðja við ríkisstjórn Löfven.

Í frétt Aftonbladet kemur fram að forystusveit Vinstriflokksins hafi komist að samkomulagi í gærkvöldi um afstöðu flokksins en hún verði ekki gefin upp fyrr en síðar í dag. Á vef Aftonbladet kemur fram að allra augu beinist nú að leiðtoga Vinstriflokksins, Jonas Sjöstedt, en grasrótin í flokknum hefur ekki viljað styðja Löfven en forystusveitin vill aftur á móti halda góðu sambandi við jafnaðarmenn.

Norlén mun í dag funda með forystufólki stjórnmálaflokkanna sem eiga fulltrúa á þingi og fyrsti fundurinn verður með Löfven. Að fundum loknum mun Norlén tilkynna hvaða formann stjórnmálaflokks þingmenn muni greiða atkvæði um á miðvikudag en það er í þriðja skiptið sem slík atkvæðagreiðsla fer fram á þingi frá því Svíar gengu að kjörborðinu 9. september.

Bæði Löfven og leiðtoga Moderna, Ulf Kristersson, hefur verið hafnað í atkvæðagreiðslu þingmanna. Þrátt fyrir að fjórir flokkar standi á bak við stjórnarsamkomulagið þurfa jafnaðarmenn á Vinstriflokknum að halda til þess að tryggja meirihluta á þingi. Alls eru þingmenn jafnaðarmanna, Græningja, Mið- og Frjálslynda flokksins 167 talsins en Vinstriflokkurinn er með 28 þingmenn.

Jonas Sjöstedt ætlar að halda blaðamannafund eftir fundinn með Norlén klukkan 11:40 og þá mun væntanlega liggja ljóst fyrir hver niðurstaða flokksins var. Ef Vinstriflokkurinn ætlar ekki að styðja Löfven og hann fær ekki meirihluta atkvæða á þingi í dag á Norlén fárra annarra úrkosta völ en að boða til atkvæðagreiðslu um Kristersson fyrir lok janúar. Ef honum verður hafnað verður boðað til nýrra kosninga og það verður að gerast innan þriggja mánaða frá síðustu atkvæðagreiðslu um forsætisráðherra.

Frétt Aftonbladet

Frétt SVT

mbl.is