Síðasti kviðdómur Noregs

Eirik Jensen, fyrrverandi yfirlögregluþjónn í Ósló. Síðasti kviðdómur Noregs metur …
Eirik Jensen, fyrrverandi yfirlögregluþjónn í Ósló. Síðasti kviðdómur Noregs metur nú sekt hans eða sakleysi í máli sem varðar hlutdeild hans í innflutningi á 14 tonnum af hassi. AFP

Þau eru tíu, fimm karlmenn og fimm konur, ólöglærð, venjulegir norskir borgarar. Síðan 28. ágúst í fyrra hafa þau setið 77 dómþing við Lögmannsrétt Borgarþings, áfrýjunardómstól á millidómstigi norsks réttar, hlýtt á framburð 120 vitna, ótal ræður sóknar- og varnarhliðar, framburð sakborningsins sjálfs, Eirik Jensens, fyrrverandi yfirlögregluþjóns í lögreglunni í Ósló, auk þess að lesa mörg þúsund blaðsíður af dómskjölum.

Klukkan 13:01 að staðartíma í dag drógu kviðdómendur sig í hlé og munu næst koma fyrir lögmannsréttinn til að svara fjórum spurningum Kristel Heyerdahl dómsformanns. Rétt er þó að rifja eftirfarandi upp áður en spurningarnar eru tíundaðar:

Eirik Jensen, fyrrverandi yfirlögregluþjónn í lögreglunni í Ósló, nú 61 árs gamall, hlaut í september í hitteðfyrra 21 árs dóm í héraðsdómi fyrir hlutdeild í fíkniefnamisferli og stórfellda spillingu með því að hafa með beinum og óbeinum hætti aðstoðað Gjermund Cappelen, hasskónginn frá Bærum, við innflutning á 14 tonnum af hassi til Noregs tímabilið 1993 til 2013. Cappelen sjálfur var ákærður fyrir innflutning á 16,7 tonnum af hassi og hlaut 15 ára dóm, sem hann áfrýjaði ekki, eftir að honum var metið til refsilækkunar að benda á sinn helsta samstarfsmann, yfirlögregluþjóninn, en mbl.is fjallaði ítarlega um dóminn á sínum tíma.

Á kviðdómnum, sem er sá síðasti er saman kemur í norskum dómsal eftir að Stórþingið samþykkti þá breytingu á norskum hegningarlögum með gildistöku 1. janúar 2018 að leggja kviðdóma af og notast þess í stað eingöngu við meðdóm sjö dómenda, brenna nú fjórar spurningar dómsformannsins Heyerdahl:

1) Er ákærði Eirik Jensen sekur um hlutdeild í ólöglegum innflutningi fíkniefna?

2) Telst magn umræddra fíkniefna samkvæmt spurningu 1 verulegt?

3) Er ákærði Eirik Jensen sekur um að hafa veitt viðtöku óviðeigandi [n. utilbørlig] þóknun í krafti stöðu sinnar?

4) (Sé svar við spurningu 3 jákvætt) Ber að líta svo á sem um stórfellda spillingu sé að ræða [n. grov korrupsjon]?

Þar sem málinu var áfrýjað til lögmannsréttarins skömmu eftir dómsuppkvaðningu í héraði haustið 2017 lýtur allur rekstur þess þeim lagabókstaf er þá gilti og situr því kviðdómur þrátt fyrir lagabreytingu með gildisdaginn 1. janúar 2018.

Mega sofa heima hjá sér

Til að fella sök á ákærða í lögmannsréttinum þurfa hið minnsta sjö kviðdómendur af tíu að lýsa yfir samdóma áliti sínu á sekt sakbornings. Verði niðurstaða kviðdómsins sekt hefst afplánun Jensens, sem gengið hefur laus síðan dómur héraðsdóms féll 18. september 2017. „Þá er lífi mínu lokið,“ sagði Jensen í viðtali við norska ríkisútvarpið NRK í dag enda með öllu óvíst að honum endist ævin til að ganga út úr fangelsinu á ný.

Dómarinn er þó alltaf síðasta hálmstrá, eða ógæfa, Jensens því í hans valdi er að víkja niðurstöðu kviðdóms til hliðar, á hvorn veginn sem hún fellur. Þetta er þó langt í frá daglegt brauð, í 659 áfrýjunarmálum frá 2013 til þessa dags hefur dómari hundsað úrskurð kviðdóms 37 sinnum, eða í 5,6 prósentum tilvika. Átján sinnum vék dómari til hliðar sýknuúrskurði kviðdóms en 19 sinnum sektarúrskurði.

Nokkurs frjálsræðis gætir af hálfu lögmannsréttarins í garð kviðdóms þess er hér er til umræðu. Til dæmis fá kviðdómendur að sofa heima hjá sér á umþóttunartíma sínum en almenna reglan hefur verið að þeir gisti á hóteli og sé óheimilt að ræða við nokkurn utanaðkomandi. Þeim er þó með öllu óheimilt að ræða málið við fjölskyldur sínar eða nokkurn annan.

Hafi kviðdómur ekki komist að niðurstöðu á föstudaginn kemur rétturinn saman á nýjan leik til að heyra af stöðunni. Þeir kviðdómenda sem svara fyrstu spurningunni neitandi fá ekki að svara hinum spurningunum en mega þó ekki yfirgefa fund kviðdómsins fyrr en endanleg niðurstaða liggur fyrir.

Að öllum líkindum ræðst það á næstu 48 klukkustundum hvort sakborningurinn í stærsta spillingarmáli Noregssögunnar gengur frjáls maður út úr Lögmannsrétti Borgarþings eða situr hugsanlega bak við lás og slá það sem hann á ólifað.

NRK

NRK II

NRK III

VG

Aftenposten

ABC Nyheter

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert