„Lyfið er lífsbjörg“

Naloxon er neyðarlyf sem getur bjargað mannslífum.
Naloxon er neyðarlyf sem getur bjargað mannslífum. Háskólinn í Washington

Velferðarráð Svíþjóðar (Socialstyrelsen) tilkynnti í morgun að heilbrigðisstarfsmenn megi dreifa neyðarlyfinu Naloxon til fólks sem glímir við fíkn og þeirra sem eru í hættu á að ofskammta af ópíóíðalyfjum (morfín­skyld lyf)Naloxon get­ur komið í veg fyr­ir and­lát ef það er gefið nægj­an­lega fljótt eft­ir ofskömmt­un. 900 deyja á ári hverju úr ofskömmtun lyfja í Svíþjóð. Það er með því mesta sem gerist í Evrópu. 

Olivia Wigzell, framkvæmdastjóri Socialstyrelsen, segir í samtali við sænska ríkisútvarpið að með þessu sé vonast til þess að koma fólki fyrr til bjargar og því hafi verið ákveðið að breyta viðmiðunarreglum heilbrigðis- og lyfjaeftirlitsins (Socialstyrelsen), í því skyni að styðja við þá sem glíma við fíkn. Samkvæmt  breyttum reglum er lagt til að heilbrigðisstarfsmenn í Svíþjóð bjóði fólki sem glímir við ópíóíðafíkn upp á Naloxon. Hingað til hefur Naloxon aðeins verið dreift á Skáni, Uppsala og í Stokkhólmi.

Wigzell segir að mikilvægt sé að lyf sem getur bjargað mannslífum sé í boði og auðveldara aðgengi sé að því. Ef þeir sem neyta fíkniefna fá lyfið afhent þurfi heilbrigðisstarfsmenn einnig að kenna viðkomandi að nota lyfið. Með þessu komist heilbrigðiskerfið nær þeim sem þurfa á slíku lyfi að halda.

Naloxon.
Naloxon. mbl.is/Valgarður Gíslason

Lyfinu verður ávísað til fólks með fíknivanda en ættingjum og þeim sem eru í nánu samneyti við viðkomandi verður einnig boðið að taka þátt í að fræðast um notkun Naloxon. Mikilvægt sé samt sem áður að alltaf sé haft samband við heilbrigðisstarfsmenn ef um ofskömmtun er að ræða, þrátt fyrir að Naloxon sé notað sem neyðarlyf. 

„Lyfið er lífsbjörg,“ segir Wigzell en áætlaður kostnaður við þessar breytingar eru 12 milljónir sænskra króna, sem svarar til 159 milljóna íslenskra króna. Inni í þeirri tölu er þjálfun sem heilbrigðisstarfsmenn munu bjóða upp á. Þar er miðað við að rúmlega 10.600 sjúklingar muni fá tvær pakkningar af Naloxon á ári. Hver pakkning kostar 449 sænskar krónur, segir Stefan Brené, verkefnastjóri setningar nýrra verklagsreglna.

Frétt SVT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert