Flóðhestar Escobar orðnir þorpsgæludýr

Talið er að eiturlyfjabaróninn Escobar hafi verið ábyrgur fyrir um …
Talið er að eiturlyfjabaróninn Escobar hafi verið ábyrgur fyrir um 7.000 dauðsföllum. AFP

Flóðhestar sem kólumbíski eiturlyfjabaróninn Pablo Escobar lét smygla inn til landsins á áttunda áratug síðust aldar hafa nú fjölgað sér og telja um 50 eða fleiri dýr, segja ráðamenn á svæðinu. Flóðhestarnir ráfa víða óáreittir og ógna lífríki umhverfisins en náttúruleg heimkynni flóðhesta finnast einungis í Afríku.

Á búgarði sínum, Villa Napoles, hafði Escobar komið upp stórum dýragarði hvar mátti að auki við flóðhestana m.a. finna nashyrninga, fíla og gíraffa. Eftir að Escobar var veginn árið 1993 fluttu stjórnvöld flest dýranna á brott en flóðhestunum var af einhverjum ástæðum leyft að vera í friði. „Fólk gleymdi flóðhestunum,“ sagði líffræðingurinn David Echeverri, sem starfar við að staðsetja og koma stjórn á flóðhestana á svæðinu. 

Banvænasta dýr Afríku

Eins og áður segir finnast náttúruleg heimkynni flóðhesta einungis í Afríku en þar syðra er ekkert dýr sem veldur fleiri dauðsföllum manna ár hvert. Engin tilfelli um árásir flóðhesta á menn eru þekkt í Kólumbíu en svæðið sem flóðhestarnir búa á í Kólumbíu er sagt vera paradís fyrir þá. Þar séu engin rándýr sem leggja sér flóðhesta til munns og nóg sé af mat og vatni. Echeverri segir flóðhestana hins vegar vera farna að nálgast heimkynni fólks um of. Það sé ekki óalgengt að sjá þriggja tonna flóðhest á vappi í mannabyggðum en heimafólk sé farið að tala um þá sem „þorpsgæludýrin“. CBS greinir frá.

Flóðhestar eru meðal stærstu landspendýra heims og geta orðið allt …
Flóðhestar eru meðal stærstu landspendýra heims og geta orðið allt að 3,6 tonn að þyngd. AFP
mbl.is