Öll fórnarlömbin yngri en 17

Borin hafa verið kennsl á þá sem fórust í eldsvoðanum í svefnskála brasilíska knattspyrnuliðsins Flamengo. Allir þeir sem fórust voru á aldrinum 14-17 ára, alls tíu drengir.

Eldurinn kom upp í svefnskála liðsins í Rio de Janeiro aðfaranótt föstudags og í fyrstu var talið að einhverjir starfsmenn hefðu einnig farist í eldsvoðanum en í gær birtu dagblöð í Brasilíu myndir og upplýsingar um þá sem fórust. Þrír ungir leikmenn slösuðust einnig í eldsvoðanum og er einn þeirra með brunasár á um 30% líkamans.

Talið er að skammhlaup í loftkælingu hafi kveikt eldinn í fyrstu en samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði var húsið nýlega byggt og hafði ekki verið gefin út staðfesting á að það stæðist kröfur um eldvarnir.

Af drengjunum tíu sem létust voru aðeins þrír frá Rio de Janeiro. Aðrir komu annars staðar frá í Brasilíu en liðið er það vinsælasta í landinu. Tveir þeirra voru markmenn, þar á meðal Christian Esmerio, 15 ára, sem hafði verið í unglingalandsliðinu, bæði 15 ára og yngri og 17 ára og yngri. Fjórir voru varnarmenn en aðrir voru framherjar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert