Kostar samningslaust Brexit 600.000 störf?

Starfsmaður á Laverstoke Park Farm-mjólkurbúinu í Hampshire handrúllar hér mosarella-osta …
Starfsmaður á Laverstoke Park Farm-mjólkurbúinu í Hampshire handrúllar hér mosarella-osta sem vonast er að geti komið í stað þess sem nú er fluttur inn frá Ítalíu. AFP

Yfirgefi Bretland Evrópusambandið án þess að samningur hafi náðst um útgönguna kann það að kosta 600.000 störf víða um heim og yrði Þýskaland hvað verst úti. Þetta eru niðurstöður rannsóknar sem IWH-stofnunin í Halle í austurhluta Þýskalands birti í dag.

Efni rannsóknarinnar var hvað myndi gerast ef innflutningur til Bretlands frá öðrum ríkjum ESB myndi minnka um 25% eftir útgönguna. Telja rannsakendur þetta geta ógnað 103.000 störfum í Þýskalandi sem er stærsta hagkerfi Evrópu, þar af 15.000 störfum hjá þýska bílaframleiðandanum Volkswagen einum saman, og 50.000 störfum í Frakklandi.

Bílageymsla hjá Volkswagen í Wolfsburg í Þýskalandi. Skýrsluhöfundar telja allt …
Bílageymsla hjá Volkswagen í Wolfsburg í Þýskalandi. Skýrsluhöfundar telja allt að 15.000 störf geta verið í hættu hjá Volkswagen yfirgefi Bretar ESB samningslausir. AFP

Vísindamennirnir segja samningslausa útgöngu þó ekki endilega fela í sér að starfsmönnunum yrði sagt upp, heldur gætu fyrirtæki einnig reynt að halda starfsfólki með því að stytta vinnutíma þess eða með því að leita fyrir sér á nýjum mörkuðum.

Óvíst er enn hvort samkomulag náist áður en Bretar ganga úr ESB 29. mars, en mikill meirihluti þingmanna á breska þinginu hafnaði í síðasta mánuði samningnum sem Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hafði náð við Evrópusambandið.

Yfirgefi Bretar ESB samningslausir taka við innflutningstollar á landamærum sem mun valda „flækjum í alþjóða flutningskeðjunni,“ segir í yfirlýsingu frá Oliver Holtemoeller, einum höfunda skýrslunnar.

Í skýrslunni voru eingöngu skoðuð áhrifin á viðskipti með vörur og þjónustu, ekki mögulegar breytingar á fjárfestingaflæði.

Skýrsluhöfundar benda þá á að áhrifa samningslausrar útgöngu verði ekki eingöngu vart innan ESB, því birgjar utan Evrópusambandsins muni einnig verða hennar varir.

Innan ríkjanna 27 sem áfram verða í ESB munu 180.000 störf hjá fyrirtækjum sem flytja vörur og þjónustu beint til Bretlands hins vegar vera í hættu. Áhrifanna mun þó gæta varðandi störf 433.000 starfsmanna til viðbótar innan og utan ESB, þar sem þau fyrirtæki selja sínar vörur og þjónustu til annarra fyrirtækja sem eru í útflutningi til Bretlands.

Þannig telja skýrsluhöfundar sem dæmi að allt að 60.000 verkamenn í Kína og 3.000 verkamenn í Japan geti misst vinnuna í kjölfar samningslausrar útgöngu.

Innan Bretlands eru svo 12.000 störf sem tengjast með beinum hætti innflutningi frá ESB. Rannsókn sem greiningafyrirtækið Cambridge Econometrics vann í fyrra bendir hins vegar til að allt að 500.000 störf í Bretlandi kunni að vera í hættu verði útgangan samningslaus.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert