Flekklaus ferill 91 árs póstmanns

Póstmaðurinn Jack Lund er kominn á eftirlaun, 91 árs, eftir ...
Póstmaðurinn Jack Lund er kominn á eftirlaun, 91 árs, eftir 69 ára starf hjá póstþjónustunni í Utah. Skjáskot/KSL-tv

Í 69 ár hefur póstmaðurinn Jack Lund staðið sína plikt og komið póstinum til íbúa í Utah-ríki í Bandaríkjunum. Lund, sem er 91 árs, hefur loks ákveðið að segja þetta gott en hann hafði reyndar ekki hugmynd um að hann hefði getað farið á eftirlaun fyrir 26 árum.

„Ég hef aldrei verið sérstaklega þekktur fyrir gáfnafar og ég vissi ekki að ég ætti að hætta 65 ára, Ég elska að keyra póstbílinn og þetta er það sem ég hef viljað gera alla mína ævi,“ segir Lund í samtali við KSL-sjónvarpsstöðina.

Lund hóf störf sem póstmaður árið 1949, þá 21 árs gamall. Lund telur að á þeim tæpu sjö áratugum sem hann hefur ferðast um á póstbílnum hafi hann keyrt um það bil 5,6 milljónir kílómetra. 

Samstarfsmenn Lund segja hann hafa allan pakkann, hann sé traustur og skili ávallt sínu, í öllum veðrum. „Ég var einu sinni á leiðinni til Phoenix í 120 sentimetra snjódýpt við fjallsrætur í Panguitch og eftirlitsmaður á þjóðveginum sagði að ég mætti ekki halda ferð minni áfram. Ég sagði við hann: „Þetta er póstbíll og þú getur ekki stöðvað mig nema í algjörri neyð.“ Og ég gabbaði hann, býst ég við, því hann hleypti mér í gegn,“ rifjar Lund upp.

Í síðustu viku ákvað Lund að láta gott heita og fara á eftirlaun, á tíræðisaldri. Pósthúsið í Richfield hélt veglegt kveðjuboð honum til heiðurs á miðvikudag þar sem fjölskylda, vinir og vinnufélagar komu saman.

En hvað tekur við hjá Lund?

„Ég hef ekki þénað mikið en lífsviðurværi mitt er gott. Ef ég get lifað í nokkur ár í viðbót og notið lífsins er ég sáttur. Lífið verður vitaskuld öðruvísi án ábyrgðarinnar sem fylgir því að bera út póstinn en ég mun plumma mig,“ segir Lund.

mbl.is