Beðið eftir Biden

Beðið er eftir því að Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, …
Beðið er eftir því að Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, gefi það út hvort hann hyggst gefa kost á sér í forvali demókrata. AFP

17 einstaklingar hafa til þessa tilkynnt um þátttöku í forvali Demókrataflokksins vegna forsetakosninga í Bandaríkjunum árið 2020. Þar af hefur einn hætt við, öldungadeildarþingmaðurinn Richard Ojeda sem situr í öldungadeild þingsins fyrir Vestur-Virginíu-ríki.

Beðið er eftir því að að Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna í forsetatíð Baracks Obama, gefi það út hvort hann hyggst gefa kost á sér þar sem hann mælist vinsælastur frambjóðendanna þrátt fyrir að hafa ekki gefið kost á sér.

Samkvæmt nýlegri könnun Morning Consult mælist Biden með 30% fylgi, en öldungadeildarþingmaðurinn Bernie Sanders sem lýsti yfir framboði sínu í dag nýtur stuðnings 21% svarenda.

Um 11% segjast styðja Kamölu Harris öldungadeildarþingmann, 8% Elizabeth Warren öldungadeildarþingmann, 7% Beto O‘Rourke, fyrrverandi þingmann í fulltrúadeild þingsins, 5% Cory Booker öldungadeildarþingmann, 4% Amy Klobuchar öldungadeildarþingmann, 2% Michael Bloomberg, fyrrverandi borgarstjóra New York, og aðrir mælast með minna.

Geoffrey Skelley, sem sérhæfir sig í greiningu kosninga, segir í grein sinni á vef FiveThirtyEight í dag að miðað við að Biden hafi mælst með mest fylgi í öllum könnunum þar sem nafns hans hefur verið getið, mætti halda að það væri sjálfasagt að hann myndi gefa kost á sér.

Sé hins vegar litið til stjórnmálasögu Bandaríkjanna er ekki óalgengt að einstaklingar sem mælast hátt gefi ekki kost á sér. Á sama tíma hafa veðbankar talið 70-80% líkur á að Biden bjóði sig fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert