Er Trump með spéfuglaflensu?

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Allt frá því Donald Trump kynnti heimslýð áform sín um að bjóða sig fram til embættis forseta Bandaríkjanna hafa spéfuglar þar í landi dregið hann sundur og saman í háði – og síst haldið aftur af sér eftir að hann náði kjöri fyrir rúmum tveimur árum.

Spjallþáttastjórnendur í sjónvarpi, svo sem Jimmy Fallon, Jimmy Kimmel, Stephen Colbert og James Corden, eru þarna framarlega í flokki, að ekki sé talað um skemmtiþáttinn Laugardagskvöld í beinni (e. Saturday Night Live), þar sem leikarinn Alec Baldwin leikur forsetann gjarnan með miklum tilþrifum og þykir ná karaktereinkennum hans vel, auk þess að vera nauðalíkur honum í gervi sínu.

Til að byrja með var ekki að sjá að Trump léti þetta slá sig út af laginu; hann mætti til að mynda einu sinni í þáttinn til Fallons meðan á kosningabaráttunni stóð og slógu þeir félagar saman á létta strengi. Vel fór á með þeim og æringinn fiktaði meira að segja í hárinu á Trump – sem frægt er. Sumir hafa reyndar bent á að hann hefði líklega betur látið það ógert. Eftir á var Fallon gagnrýndur fyrir að taka með silkihönskum á Trump sem varð til þess að hann kvaðst í viðtali við Hollywood Reporter sjá eftir nálgun sinni. Ekki hefði verið meiningin að kvitta upp á umdeildar skoðanir Trumps og gera hann „mennskari“ í huga áhorfenda.
Þau ummæli voru einmitt upptakturinn að andsvari Trumps sem eyddi, mörgum að óvörum, orðum á Fallon, Kimmel og Colbert, í ræðu og riti seinasta sumar. Sagði þá hæfileikalausa og ófyndna. „Ég meina, í alvöru, eru þessir menn fyndnir?“ spurði forsetinn. Fallon líkti hann við týnda sál og hvatti hann til að „manna sig upp“.

Alec Baldwin.
Alec Baldwin. AFP

Eins og við var að búast svöruðu háðfuglarnir forsetanum fullum hálsi og færðust allir í aukana. „Hefur maðurinn virkilega ekkert þarfara að gera?“ spurði Fallon í þætti sínum og margir tóku undir með honum; það væri ekki forseta Bandaríkjanna sæmandi að elta ólar við sprell og spé úti á alþýðuakrinum.

Óvinir fólksins

Trump lét þó ekki segjast, frekar en við var að búast, og um liðna helgi beindi hann spjótum sínum að Alec Baldwin. „Ekkert fyndið við útjaskað Laugardagskvöld í beinni á falsfréttastöðinni NBC!“ tísti hann eftir að Baldwin sneri aftur eftir hlé og dró dár að blaðamannafundi forsetans, þar sem hann lýsti yfir neyðarástandi á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Trump furðaði sig enn fremur á því að stöðin kæmist upp með þátt af þessu tagi án viðurlaga og lagði til að málið yrði kannað. Þá rifjaði hann upp vandræðalegar fréttir af Baldwin frá fyrri tíð og henti að lokum í kunnuglegt stef, í hástöfum: „HLUTDRÆGIR OG SPILLTIR FJÖLMIÐLAR ERU ÓVINIR FÓLKSINS!“

Fréttaskýringuna má lesa í heild í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.  

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert