Rouhani fellst ekki á afsögn Zarif

Mohammad Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans, og forseti landsins, Hassan Rouhani, …
Mohammad Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans, og forseti landsins, Hassan Rouhani, á góðri stundu. Zarif greindi frá afsögn sinni á mánudag en Houssani hyggst ekki taka hana gilda. AFP

Hassan Rouhani, forseti Írans, ætlar ekki að taka afsögn Mohammad Javad Zarif, ut­an­rík­is­ráðherra Írans, gilda. Zarif birti mynd á Instagram á mánudagskvöld þar sem hann greindi frá ákvörðun sinni. Sagðist hann ekki lengur vera hæfur til að gegna embætti sínu.

Zarif sagði í blaðaviðtali sem birtist í gær að hann hefði sagt af sér þar sem átök milli flokka og fylkinga í landinu eitruðu út frá sér og sköðuðu utanríkisstefnu Írans.

„Að mínu mati stríðir afsögn þín gegn hagsmunum landsins og því get ég ekki fallist á hana,“ er haft eftir forsetanum í tilkynningu á vef forsætisráðherraembættisins.

Zarif hefur fundið fyrir aukinni pressu í embætti eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti tók þá ákvörðun að draga Bandaríkin út úr kjarn­orku­sam­komu­lag­inu við Íran sem gert var árið 2015 og taka upp all­ar þær refsiaðgerðir gegn Íran sem af­numd­ar voru með samkomulaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert