Óttast um líf Anne-Elisabeth

Anne-Elisabeth Hagen hefur verið saknað frá því í lok október.
Anne-Elisabeth Hagen hefur verið saknað frá því í lok október. AFP

Norska lögreglan kvaðst í gær hafa vaxandi áhyggjur af því að Anne-Elisabeth Falkevik Hagen, eiginkona auðkýfingsins Toms Hagens, væri ekki á lífi. Hennar hefur verið saknað frá 31. október og talið er að henni hafi verið rænt.

„Lögreglan hefur augljóslega áhyggjur af því að engin sönnun er fyrir því hún sé á lífi,“ sagði Tommy Brøske, sem stjórnar rannsókn lögreglunnar á málinu. „Það er eðlilegt að lögreglan velti því fyrir sér, meira en áður, hvort Anne-Elisabeth Hagen sé á lífi.“

Lögreglan tilkynnti í janúar að fundist hefðu skilaboð á heimili Hagen þar sem krafist hefði verið lausnargjalds fyrir hana. Kröfunni hefði fylgt „alvarleg hótun“.

Hótuðu að myrða konuna

Norska blaðið Verdens Gang segir að krafist hafi verið jafnvirðis 1,2 milljarða króna í lausnargjald og að greiðslan hafi átt að vera í rafmyntinni monero sem erfitt er að rekja. Blaðið segir að skilaboðin hafi verið skrifuð á slæmri norsku og hótað hafi verið að Hagen yrði myrt ef fjölskylda hennar leitaði til lögreglunnar.

Lögreglan hefur ekki staðfest þetta en sagt að hún hafi ráðlagt fjölskyldu Hagen að greiða ekki lausnargjaldið.

Rannsóknarmenn lögreglunnar hafa náð sambandi á netinu við menn sem segjast hafa rænt Hagen en hafa ekki fengið neinar sannanir fyrir því að hún sé í haldi þeirra eða sé enn á lífi.

Lögreglan hefur fengið rúmlega 1.500 ábendingar frá almenningi í tengslum við rannsóknina en engin þeirra hefur komið að miklu gagni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert