Fjölkvæni óréttlátt gagnvart konum

Trúarleiðtoginn Ahmed al-Tayeb segir að fjölkvæni sé óréttlátt gagnvart konum. …
Trúarleiðtoginn Ahmed al-Tayeb segir að fjölkvæni sé óréttlátt gagnvart konum. Til þess að eiga margar konur verði karlar að lúta sanngirnisskilyrðum. AFP

Háttsettur trúarleiðtogi við Al-Azhar-stofnunina í Egyptalandi, Ahmed al-Tayeb, lýsti því yfir á föstudaginn að fjölkvæni fæli í sér óréttlæti í garð kvenna. Ummælin lét hann falla á Twitter-síðu stofnunarinnar.

Enn fremur sagði Tayeb að fjölkvæni byggði á rangri túlkun á kóraninum, trúarriti múslima, og þeim hefðum sem Múhameð spámaður hefði lagt grunninn að. Trúarleiðtoginn kom einnig inn á þetta í sjónvarpsþætti sama dag þar sem hann sagði þá hafa rangt fyrir sér sem héldu því fram að hjónaband yrði að fela í sér fjölkvæni.

Bætti Tayeb því við að til þess að eiga margar eiginkonur yrði íslamskur karlmaður samkvæmt kóraninum að lúta sanngirnisskilyrðum. Ef sú væri ekki raunin væri óheimilt að eiga margar eiginkonur. Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa og hefur skapast mikil umræða um ummælin á samfélagsmiðlum um helgina.

Þetta varð til þess að Al-Azhar-stofnunin sendi frá sér áréttingu í gær þar sem fram kom að Tayeb hefði ekki haldið því fram að banna ætti fjölkvæni. Trúarleiðtoginn kallaði hins vegar eftir endurskoðun á því hvernig farið væri með málefni kvenna.

„Konur eru helmingur samfélagsins, ef við hugsum ekki um þær er það eins og að ganga á aðeins einum fæti,“ sagði Tayeb á Twitter. Þjóðarráð kvenna í Egyptalandi hefur tekið ummælum trúarleiðtogans fagnandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert