Clinton ætlar ekki í framboð

Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra og öldungadeildarþingmaður New York.
Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra og öldungadeildarþingmaður New York. AFP

Hillary Clinton hefur í fyrsta skipti staðfest að hún muni ekki taka þátt í forvali fyrir bandarísku forsetakosningarnar árið 2020. 

„Ég ætla ekki að taka þátt en ég mun halda áfram að vinna að og tala fyrir fyrir því sem ég trúi á,“ sagði Clinton í viðtali við News 12 sjónvarpsstöðina í New York í gærkvöldi.

Clinton laut í lægra haldi gegn Donald Trump, fulltrúa repúblikana, í kosningunum árið 2016. Hún var utanríkisráðherra Bandaríkjanna og öldungadeildarþingmaður demókrata í New York í átta ár.

„Ég vil tryggja að fólk skilji hvað ég ætla mér að tala um,“ sagði Clinton. Hún segist ekki vera á útleið. Það sem er undir í okkar landi eru atriði sem eru alvarleg og þetta eru hlutir sem eru að gerast nákvæmlega á þessari stundu,“ segir hún.

Clinton hefur átt fundi með hluta þeirra demókrata sem ætla að taka þátt í forvali flokksins fyrir forsetakosningarnar á næsta ári. CNN segir að meðal þeirra sem hún hafi átt fundi með sé Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna. Hann hefur ekki lýst yfir áhuga á að taka þátt í forvalinu.

„Ég hef sagt þeim öllum að taka engu sem sjálfgefnum hlut jafnvel þrátt fyrir að listinn yfir raunveruleg vandamál og svikin loforð stjórnvalda sé langur,“ segir Clinton. Þegar hún var spurð að því í viðtalinu hvort hún myndi sækjast eftir opinberu starfi reyndi Clinton að komast hjá því að svara. Hún sagðist ekki eiga von á því og hún sé afar ánægð með að búa í New York. Clinton segist þakklát fyrir að hafa verið öldungadeildarþingmaður ríkisins í átta ár og að hafa fengið tækifæri til að starfa með fólki víðs vegar um ríkið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert