Þrýsta á Þjóðverja að sniðganga Huawei

Höfuðstöðvar Huawei í Shenzhen í Kína.
Höfuðstöðvar Huawei í Shenzhen í Kína. AFP

Bandarísk stjórnvöld hafa varað þýsk stjórnvöld við því að verði kínverska fjarskiptarisanum Huawei leyft að taka þátt í 5G væðingu Þýskalands þá deili bandarískar leyniþjónustur síður leynilegum upplýsingum með þýskum kollegum sínum. BBC segir bandaríska sendiherrann í Þýskalandi hafa nýlega sent þýskum ráðamönnum bréf þessa efnis.

Bandarísk stjórnvöld hafa undanfarna mánuði þrýst á bandamenn sína að sniðganga Huawei, sem þau vilja meina að ógni þjóðaröryggi.

Fyrirtækið hefur barist hart á móti og hefur m.a. höfðað mál gegn bandarískum stjórnvöldum og saka þau um óhróðursherferð gegn sér.Auk þess hefur Huawei keypt heilsíðu auglýsingar í bandarískum fjölmiðlum þar sem bandarískir neytendur eru hvattir til að trúa ekki öllu sem þeir heyri.

Wall Street Journal segir Richard Grenell, sendiherra Bandaríkjanna í Þýskalandi, fullyrða í bréfi sínu að Bandaríkin muni ekki geta haldið sambærilegu samstarfi við þýskar leyniþjónustustofnanir áfram, verði Huawei eða öðrum kínverskum fyrirtækjum leyft að taka þátt í 5G væðingunni þar í landi.

Bréfið var sent efnahagsráðherra Þýskalands síðasta föstudag og segir þar að öruggt samskiptakerfi sé nauðsynlegt fyrir varnar- og leyniþjónustusamstarf og að fyrirtæki á borð við Huawei geti stefnt slíku í hættu. 

BBC segir þessa viðvörun vera merki um stigmögnun í aðgerðum stjórnar Donald Trump Bandaríkjaforseta til að reyna að sannfæra bandaþjóðir sínar um að sniðganga þennan kínverska fjarskiptarisa.

Bandaríkin, Ástralía og Nýja Sjáland hafa þegar bannað fjarskiptafyrirtækjum að nota Huawei við uppbyggingu 5G kerfisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert