Lögregla skaut axarmann

mbl.is/Atli Steinn

Lögreglu í austurumdæmi norsku lögreglunnar barst um kvöldmatarleytið í kvöld tilkynning um alvarlega slasaða konu í Skjetten, utan við Lillestrøm, skammt norðaustur af Ósló. Hélt lögregla þegar á staðinn ásamt sjúkraliði og hittist þar fyrir kona á fimmtugsaldri með nokkra áverka.

Var henni komið í skyndingu á Háskólasjúkrahúsið í Akershus þaðan sem Geir Lindhjem upplýsingafulltrúi færði fjölmiðlum skömmu síðar þau tíðindi að ástand hennar væri ekki eins alvarlegt og í fyrstu var óttast.

Skammt frá þar sem konan fannst hitti lögregla fyrir mann á fertugsaldri sem vopnaður var öxi og lét ófriðlega. Reyndu lögreglumenn á vettvangi að tala hann til, að sögn Olav Unnestad yfirlögregluþjóns, en komu þær umleitanir að litlu haldi.

Fór svo að lokum að maðurinn réðst gegn lögreglu með öxi sína reidda og var þá umsvifalaust skotinn niður. Var axarmaðurinn, sem reyndist vera góðkunningi lögreglunnar, fluttur á Ullevål-sjúkrahúsið í Ósló þar sem hann liggur nú þungt haldinn, þó ekki í lífshættu.

Tæknilið lögreglu er nú við rannsóknir á vettvangi og segir Unnestad engan lögreglumannanna hafa sakað við atlögu mannsins. Hann segir ekki ljóst hvort, og þá hver, tengsl séu milli konunnar og mannsins með öxina og kýs að tjá sig ekki um með hvaða hætti árásarmaðurinn hafi áður komið við sögu lögreglu.

NRK

VG

TV2

ABC Nyheter

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert