Verður ekki tekin af lífi

Víetnömsk kona sem var sökuð um að hafa drepið Kim Jong-nam, hálfbróður leiðtoga Norður-Kóreu, verður ekki dæmd til dauða fyrir morð heldur hefur hún játað sig seka um minni háttar brot. 

Hún var dæmd í þriggja ára og fjögurra mánaða fangelsi í Malasíu í dag og er upphaf afplánunar miðuð við daginn sem konan, Doan Thi Huong, var handtekin eða febrúar 2017. Því er líklegt að hún verði látin laus í maí að sögn lögmanns hennar. 

Ef Huong hefði verið sakfelld fyrir morð þá er líklegt að hún hefði verið dæmd til dauða. Kim var drepinn með VX-taugagasi á flugvellinum í Kuala Lumpur um hábjartan dag árið 2017. 

Niðurstaða dómsins í dag þýðir að enginn hefur verið dæmdur ábyrgur fyrir dauða Kims.

Hisyam Teh Poh Teik, lögmaður Huong, sagði við fréttamenn fyrir utan Shah Alam dómstólinn í dag að Huong yrði látin laus í byrjun maí og þá gæti hún snúið heim til Víetnam. Önnur kona sem einnig var handtekinn vegna dauða Kim var óvænt látin laus nýverið. Siti Aisyah er frá Indónesíu og var hún látin laus eftir að dómsmálaráðherra Malasíu hafði afskipti af málinu. 

Morðið vakti mikla at­hygli á sín­um tíma vegna þeirr­ar fífldirfsku sem það bar vitni um og hafa lög­menn Aisyah og Huong haldið því fram að kon­urn­ar hafi verið gabbaðar af yf­ir­völd­um í Norður-Kór­eu. Fjór­ir norðurkór­esk­ir út­send­ar­ar voru einnig ákærðir vegna máls­ins en konurnar tvær töldu sig vera að taka þátt í sjónvarpshrekk þegar þær sprautuðu efni í andlit Kim. 

Doan Thi Huong.
Doan Thi Huong. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert