Trump hafi sýnt mikinn samstarfsvilja

Bill Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, á blaðamannafundi í dag þar sem …
Bill Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, á blaðamannafundi í dag þar sem Mueller-skýrslan svonefnda er til kynningar. AFP

Bill Barr dómsmálaráðherra Bandaríkjanna segir að hvorki Donald Trump né framboð hans í forsetakosningum árið 2016 hafi átt í samstarfi við Rússa í tengslum við afskipti þeirra síðastnefndu af kosningunum. Barr kynnti skýrsluna á blaðamannafundi í dag.

Mueller-skýrslunnar svonefndu, rannsóknarskýrslu um afskipti Rússa og mögulegan þátt forsetans í þeim, hefur verið beðið með eftirvæntingu.

Fram kom í máli Barr að lögmönnum Trumps hefði gefist kostur á því að fara yfir skýrsluna fyrr í þessari viku. Hvíta húsið gerði engar athugasemdir við lokaútgáfu hennar og nýtti ekki heimildir til að afmá viðkvæmar upplýsingar innan úr Hvíta húsinu.

Barr sagði Hvíta húsið hafa sýnt mikinn samstarfsvilja í tengslum við rannsóknina og að forsetinn hefði enga tilraun gert til að hindra rannsóknina. 

„Það eru skýr sönnunargögn sem sýna reiði reiði forsetans vegna rannsóknarinnar var á rökum reist. Hún hafi verið knúin áfram af pólitískum andstæðingum hans og ólöglegum lekum,“ sagði hann. „Þrátt fyrir þetta sýndi Hvíta húsið samstarfsvilja og veitti algjöran aðgang að gögnum,“ bætti Barr við.

„Búið spil“

Donald Trump hefur lýst skoðun sinni á skýrslunni, en það gerði hann á Twitter með mynd sem hefur skírskotun í sjónvarpsþættina Game of Thrones. Þar segir hann: „Ekkert samráð [við Rússa], enginn hindrun á framgangi réttvísinnar. Tileinkað andstæðingum mínum og róttækum vinstrisinnuðum demókrötum. Búið spil.“

mbl.is