Trump segist ekki hafa borgað krónu

Donald Trump og Kim Jong-un á fundi í Víetnam í …
Donald Trump og Kim Jong-un á fundi í Víetnam í febrúar. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti fullyrðir að Bandaríkin hafi ekki greitt Norður-Kóreu fyrir að sleppa bandarískum háskólanema, Otto Warmbier, úr haldi. Warmbier missti meðvitund í haldi Norður-Kóreumanna eftir pyntingar að því er talið er.

Í frétt Washington Post í gær var haft eftir ónafngreindum heimildarmanni að bandarísk yfirvöld hafi verið látnir skrifa undir samning um að greiða tvær milljónir dollara í lækniskostnað Warmbier áður en þeim var leyft að fljúga með hann til Bandaríkjanna árið 2017. Sagði í fréttinni að sendinefndin sem sótti hann hafi skrifað undir samkvæmt fyrirskipunum frá Trump.

Trump skrifar á Twitter í dag að engir peningar hafi verið greiddir fyrir Otto Warmbier, „ekki tvær milljónir dollara, ekki neitt.“

Otto Frederick Warmbier var látinn flytja ávarp í norðurkóresku sjónvarpi …
Otto Frederick Warmbier var látinn flytja ávarp í norðurkóresku sjónvarpi og játa á sig glæp. AFP

Hann skrifaði svo ummæli sem hann sagði höfð eftir þeim sem fer fyrir samningum um lausn gísla, en gat þó engra heimilda: „Donald J. Trump forseti er besti samningamaður um lausn gísla sem ég veit um í allri sögu Bandaríkjanna. Tuttugu gíslum sem margir hafa verið í ómögulegum aðstæðum,hefur verið sleppt á síðustu tveimur árum. Engir peningar hafa verið greiddir. Cheif, samningamaður um lausn gísla“.

Warmbier, nemandi við Háskólann í Virginíu, var handtekinn í Norður-Kóreu, sakaður um að hafa tekið niður áróðursveggspjald á hótelherbergi sínu þar í landi.

Læknar segja að hann hafi hlotið heilaskemmdir í varðhaldinu og misst meðvitund. Hann var fluttur meðvitundarlaus til Bandaríkjanna þar sem hann lést nokkrum dögum síðar.

Norðurkóresk stjórnvöld neita þeim ásökunum fjölskyldu Warmbier að hann hafi verið pyntaður. Þau segja hann hafa veikst af matareitrun.

Dánardómstjóri sem krufði lík Warmbiers sagði að dánarorsök væri ókunn.

Trump hefur gert sættir við Norður-Kóreu af einu sína helsta stefnumáli og hann hefur átt tvo fundi með einræðisherranum Kim Jong-un.

Eftir seinni fund þeirra, sem fram fór í febrúar, sagðist Trump trúa því að Kim hafi ekki vitað hvað kom fyrir Warmbier í fangelsinu. „Ég tek orð hans trúanleg,“ sagði Trump. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert