Fjallið sem varð að kórónu

Maha Vajiralongkorn konungur og Suthida drottning.
Maha Vajiralongkorn konungur og Suthida drottning. AFP

Konungur sem hefur kvænst fjórum sinnum og með mikið dálæti á herflugvélum var formlega settur inn í embætti í Taílandi í dag. Kóróna Vajiralongkorn vegur 7,3 kíló og er tákn Merufjalls, íverustað hind­úaguðsins Indra. Hann hefur gegnt embættinu í rúm tvö ár eða frá fráfalli föður hans.

Maha Vajiralongkorn er 66 ára gamall og nefnist nú Rama X konungur. Lítið hefur farið fyrir honum opinberlega enda eyðir hann mestum tíma sínum í útlöndum og er ekkert fyrir að koma opinberlega fram í heimalandinu.

Maha Vajiralongkorn konungur og Suthida drottning.
Maha Vajiralongkorn konungur og Suthida drottning. AFP

Traustir ráðgjafar, verðir og harðar reglur um hvernig fjalla má um konungsfjölskylduna í Taílandi hefur styrkt ímynd hins dularfulla konungs. Aftur á móti hafa borist fregnir af honum úr erlendum fjölmiðlum þrátt fyrir að Vajiralongkorn veiti nánast aldrei viðtöl.

Innsetningarathöfnin hófst klukkan 10:09 að staðartíma, klukkan 03:09 í nótt og verður nýjum konungi fagnað í þrjá daga. Konungurinn heitir þegnum sínum aukinni hamingju og öryggi en afhöfnin í nótt hófst með því að hvítklæddur konungur var ausinn helgu vakti í garði konungshallarinnar. Síðan var skotið úr fallbyssum honum til heiðurs og leikið á hljóðfæri auk þess sem munkar söngluðu honum til heiðurs.

AFP

Krýningin í dag er sú fyrsta sem flestir íbúar Taílands verða vitni að því síðast var konungur krýndur í landinu árið 1950. Bhumibols Adulyadejs, faðir hans var konungur Taílands í 70 ár en hann lést 13. október árið 2016. Hann var 88 ára gamall þegar hann lést og á löngum valdatíma var hann sameiningarafl þjóðar sinnar á meðan herinn og kjörnar stjórnir tókust á um völdin. Hann vann þó fremur að því að efla konungsveldið en stofnanir lýðræðisins og velta ýmsir því fyrir sér hvaða breytingar séu í vændum á næstu árum. 

Krýningarathöfnin kostar 31 milljón Bandaríkjadala, 3,8 milljarða króna, og verður framhaldið á morgun en þá verður farið í skrúðgöngu sem tekur nokkra klukkutíma í að fara um gamla hluta Bangkok.

AFP

Vajiralongkorn er fæddur 26. júlí 1952 og lauk háskólanámi í Bretlandi. Í kjölfarið fór hann til náms hjá hernum í Ástralíu. Þar féll hann fyrir flugi, einkum herflugvélum og var flugmaður í taílenska flughernum. 

Hann hefur mikinn áhuga á útivist og stóð Vajiralongkorn meðal annars fyrir alþjóðlegum hjólreiðakeppnum í Bangkok árið 2015. 

Konungurinn er ekki mikið fyrir að flytja ræður og hefur eytt stærstum hluta ævinnar erlendis, einkum í Þýskalandi þar sem hann á nokkrar fasteignir. Hann dvelur langdvölum á landareign sinni við Starnberg vatn í Bæjaralandi. Þaðan flýgur hann víða um heim á Boeing 737 þotu sinni. 

Þegar faðir hans lést árið 2016 kom Vajiralongkorn mörgum á óvart með því að fresta því að taka við krúnunni og gefa almenningi færi á að syrgja. Hann hefur einnig komið á óvart með ákvörðunum sínum tengdum stjórnmálaum meðal annars breytingum á stjórnarskrá varðandi aðskilnað einveldisins og ríkisins.  

AFP

Eugenie Merieau, sem er sérfræðingur í taílenskum stjórnmálum, segir að hann hafi mun meiri afskipti af stjórnmálum en faðir hans gerði á sínum tíma. 

Vajiralongkorn tilkynnti á miðvikudag um fjórða hjónaband hans er hann gekk að eiga fyrrverandi flugfreyju hjá Thai Airways, Suthida Vajiralongkorn na Ayudhya. 

Þetta er hennar fyrsta opinbera athöfn sem drottning og segja fjölmiðlar frama hennar helst minna á ævintýri. Suthida var klædd í bleikan kjól við krýninguna í nótt og sat við hlið eiginmannsins eftir að hann hafði hellt nokkrum dropum af heilögu vatni yfir enni hennar og hendur. Þau eiga engin börn saman en Vajiralongkorn á 14 ára gamlan son frá þriðja hjónabandi auk þess sem hann á sex börn til viðbótar.

AFP

Suthida hefur ekki jafn tigna ættartölu og tengdamóðir hennar, Sirikit drottning, sem er langömmubarn fimmta konungs Chakri-konungsfjölskyldunnar (Vajiralongkorn er sá tíundi).

Suthida er fædd 3. júní 1978 og útskrifaðist með háskólagráðu í listfræði árið 2000. Eftir útskrift hóf hún störf hjá Thai Airways og samkvæmt taílenskum fjölmiðlum kynntist hún eiginmanninum er hann flaug einni af flugvélum félagsins á góðgerðarviðburði árið 2007. Í nóvember 2013 fór hún í herinn og í kjölfarið fékk hún starf í lífvarðarsveit konungsfjölskyldunnar. Í desember 2016 var hún gerð að herforingja og tæplega ári síðar næst æðsti yfirmaður lífvarðarsveitar konungs. 

AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
mbl.is