Vinsæll spjallþáttur tekinn úr sýningu

The Jeremy Kyle Show hefur verið á ITV frá árinu …
The Jeremy Kyle Show hefur verið á ITV frá árinu 2005. Skjáskot af ITV

Allir þættir vinsæls spjallþáttar á ITV-sjónvarpsstöðinni hafa verið teknir út af vef stöðvarinnar og upptökum á þáttunum hætt eftir að greint var frá því að gestur þáttarins hafi framið sjálfsvíg eftir að hafa komið fram í þættinum.

Um er að ræða vinsælasta þátt bresku sjónvarpsstöðvarinnar að degi til, The Jeremy Kyle Show, en þátturinn hefur sætt mikilli gagnrýni fyrir framkomu þáttastjórnenda í garð gesta.

Steve Dymond var 63 ára gamall þegar hann lést en í síðustu viku var hann gestur í þættinum. Þar féll hann á lygamælisprófi sem hann tók til þess að reyna að sannfæra unnustuna um að hann hafi ekki haldið fram hjá henni. Vegna þess að hann féll á prófinu slitnaði upp úr sambandi þeirra, segir í frétt The Sun.

Hér má sjá myndir af forsíðum bresku blaðanna í morgun

Þingmaður Íhaldsflokksins, Charles Walker, segir í viðtali við Daily Mail að réttast væri fyrir  ITV að hætta sýningum á þáttunum og hann undrist hvers vegna þátturinn hafi verið svo lengi á dagskrá ITV. 

Alan Berg, dómari í Manchester, lýsti þættinum árið 2007 sem sjúklegri og niðurdrepandi sýningu á vanhæfu fólki sem lifir og hrærist í því að etja fólki saman.

Þátturinn nýtur mikilla vinsælda en talið er að um ein milljón horfi á hvern þátt. Þættirnir eru í umsjón Kyle sem er fyrrverandi tryggingasölumaður. Hann hefur stýrt þættinum allt frá upphafi eða í 14 ár. 

Mjög hefur verið rætt um áhrif raunveruleikasjónvarpsþátta á andlega líðan fólks í Bretlandi en á innan við einu ári hafa tveir þátttakendur í þáttunum Love Island tekið eigið líf. Sophie Gradon framdi sjálfsvíg í fyrra en Mike Thalassitis í síðasta mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert