Forstjóri segir af sér eftir umdeilda færslu

Forstjóri XXL í Svíþjóð hefur sagt upp störfum eftir að …
Forstjóri XXL í Svíþjóð hefur sagt upp störfum eftir að lítið var gert úr Gretu Thunberg í færslu á Facebook-síðu hans. AFP

Forstjóri íþróttavöruverslunarinnar XXL í Svíþjóð, Per Sigvardsson, hefur sagt starfi sínu lausu eftir að hann birti mynd af aðgerðasinnanum Gretu Thunberg á Facebook. Með myndinni skrifaði hann „eins nálægt downs og hægt er að verða“.

Þetta kom fram í Facebook-færslu Sigvardsson í apríl í framhaldi af heimsókn Thunberg í Evrópuþingið. Sjálfur heldur Sigvardsson því fram að óprúttnir aðilar hafi komist inn á aðganginn hans.

XXL greindi frá því í yfirlýsingu að óháð fyrirtæki hefði verið fengið til að rannsaka málið eftir að Sigvardsson sagði hakkara hafa komist yfir Facebook-aðganginn hans.

Þar kemur enn fremur fram að fyrirtækið geti ekki staðfest hvort færslan hafi verið birt og heldur ekki staðfest hvort óprúttnir aðilar hafi komist inn á síðu Sigvardsson.

Sigvardsson ákvað sjálfur að segja upp og tekur uppsögnin gildi þegar í stað. Var það gert til að vinnufriður næðist.

Fram kemur í tölvupósti sem XXL sendi NRK að fyrirtækið styðji ákvörðun Sigvardsson. Ákvörðunin sé tekin með hagsmuni fyrirtækisins að leiðarljósi og nú hefjist leit að nýjum forstjóra þess í Svíþjóð.

mbl.is

Bloggað um fréttina