Fannst lifandi tveimur vikum eftir hvarf

Amanda Eller ásamt hluta björgunarliðsins.
Amanda Eller ásamt hluta björgunarliðsins. AFP

Bandarískur jógakennari frá Hawaií, Amanda Eller, sem hvarf fyrir tveimur vikum síðan úr gönguferð á eyjunni Maui, fannst í gærkvöldi eftir umfangsmikla leit.

Eller, 35 ára, sást síðast 8. maí áður en hún villtist í gönguferð og slasaðist. Henni var síðan bjargað flugleiðis með þyrlu í gær og samkvæmt CNN leið henni vel þrátt fyrir meiðsl sín. Eller náði í tvær vikur að lifa einungis á berjum og vatni.

Eller fannst berfætt í gjúfri á milli tveggja fossa og veifaði björgunarþyrlunni sem leitaði hennar ákaft. Var henni komið samstundis á spítala og á líðan hennar að vera nokkuð góð miðað við aðstæður. 

Í samtali við CNN sagðist móðir Amöndu aldrei hafa misst vonina að dóttir hennar myndi finnast, en grunur lék á um að hún hafði verið numin á brott.

Gljúfrið þar sem Amanda Eller fannst.
Gljúfrið þar sem Amanda Eller fannst. AFP
mbl.is