Þrælkunarbúðir eða tónleikar?

Leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong-un, ásamt eiginkonu sinni Ri Sol-ju.
Leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong-un, ásamt eiginkonu sinni Ri Sol-ju. AFP

Háttsettur norðurkóreskur embættismaður, sem átti að hafa verið sendur í þrælkunarbúðir, mætti á tónleika með leiðtoga landsins, Kim Jong-un, í gær að því er fram kemur í ríkisfjölmiðli Norður-Kóreu.

Á föstudag bárust fregnir af því að Kim Yong-chol hefði verið sendur í þrælkunarbúðir í refsingarskyni en nú hafa fjölmiðlar í Norður-Kóreu birt myndir af honum við hlið leiðtogans og fleiri háttsettra embættismanna á tónleikum. Fjölmargir þeirra sem voru á tónleikunum hafa staðfest að Kim var þar þrátt fyrir að á myndum sé erfitt að bera kennsl á hann þar sem hendur hans hylja andlitið að hluta, segir í frétt BBC af meintri tónleikaferð Kim Yong-chol.

Kim Yong-chol, sem áður var í leyniþjónustunni, er sagður vera hægri hönd leiðtoga Norður-Kóreu. Í janúar fór hann til Bandaríkjanna að undirbúa annan leiðtogafund Kim og forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, sem var haldinn í Hanoi í Víetnam.

Að Kim Yong-chol hafi verið á tónleikunum þýðir ekki endilega að hann hafi ekki verið um tíma í þrælkunarbúðum. 

BBC bendir á, líkt og AFP-fréttastofan gerði fyrir helgi, að ekki er alltaf rétt farið með í fjölmiðlum í Suður-Kóreu þegar kemur að refsingum í Norður-Kóreu. Til að mynda hefur ítrekað verið greint frá aftökum fólks sem síðan hefur reynst sprelllifandi.

Mynd frá tónleikunum í gær.
Mynd frá tónleikunum í gær. AFP

Í fréttum á föstudag, sem voru hafðar eftir ónafngreindum heimildum, var sagt að Kim Hyok-chol, sem var lykilmaður í viðræðum leiðtoganna, hafi verið tekinn af lífi á flugvelli í Pyongyang.

Kim Hyok-chol var ekki meðal gesta á tónleikunum í gær en ríkisfjölmiðlar hafa ekki enn greint frá því að hann hafi verið tekinn af lífi eða refsað á annan hátt þannig að ekki er vitað með fullri vissu hvort hann er á lífi eður ei. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert