Rangar fréttir um líknardráp stúlku

Noa Pothoven gaf út bók um raunasögu sína í fyrra. …
Noa Pothoven gaf út bók um raunasögu sína í fyrra. Hún tilkynnti á Instagram í síðustu viku að hún væri hætt að borða og drekka. Svo lést hún á sunnudag.

Falsfrétt um líknardráp 17 ára hollenskrar stúlku fer víða um internetið. Hið rétta er að stúlkunni var neitað um líknardráp og virðist á endanum hafa svelt sig í hel á heimili sínu, þrátt fyrir margítrekaðar innlagnir á sjúkrahús. Hún lést á sunnudag.

Í þessari frétt héraðsmiðilsins Gelderlander segir að stúlkan hafi tilkynnt að hún væri hætt að neyta matar og drykkjar endanlega og látist nokkrum dögum síðar.

Virtir erlendir fjölmiðlar hafa sagt frá því að um líknardráp á vegum viðurkenndra stofa hafi verið að ræða en að því er kemur fram í þessari viðtali við stúlkuna frá því í fyrra var stúlkunni neitað um þá þjónustu. Sums staðar hefur fréttin verið leiðrétt. Annars staðar ekki. 

Independent

Metro

Götublaðið Sun

Euronews

Frétt DV

Í frétt Washington Post hefur fullyrðing um að um löglegt líknardráp hafi verið að ræða verið dregin til baka.

Líknardráp er leyfilegt í Hollandi undir ákveðnum kringumstæðum. Er þá skilyrði að þjáningin sé þeim kýs að deyja óbærileg. Ekki var orðið við ósk stúlkunnar um líknardráp.

Noa Pothoven heitir hún og er frá Arnhem. Hún lést á heimili sínu á sunnudaginn úr næringar- og vökvaskorti eftir að hafa neitað að borða dögum eða vikum saman, eins og kemur hér fram í frétt ítalskrar fréttastofu TG Com 24, sem leiðrétt hefur fyrri fréttir sínar af meintu líknardrápi. 

Hún hafði verið að kljást við áfallastreituröskun og fleiri fylgifiska kynferðisofbeldis árum saman og sagðist ekki þola meir. Á Instagram skömmu fyrir dauða sinn tilkynnti hún um ákvörðun sína.

Þetta var ekki líknardráp, heldur dó hún heima hjá sér

Það var írskur blaðamaður að nafni Naomi O'Leary sem vakti athygli á misskilningnum sem ríkti um að dauðaorsök stúlkunnar hafi verið „löglegt líknardráp“ eins og víða er haldið fram. O'Leary starfaði á sínum tíma hjá fréttaveitunni Reuters og starfar nú fyrir Politico. Hún bendir í Twitter-færslu á að mikið lesnir breskir miðlar eins og Independent og Daily Mail hafi slegið upp fyrirsögnum um „löglegt líknardráp“ (e. legal euthanasia). 

O'Leary kveðst hafa átt samtal við hollenskan blaðamann sem fjallað hefur um málið fyrir Gelderlander, eins og vísað er í hér að ofan, og að þar hafi komið fram að stúlkan hafi leitast á sínum tíma eftir að fá líknardrápsþjónustu hjá slíkri stofu en að vegna aldurs hafi henni verið neitað um þjónustuna.

Stúlkan þjáðist illa af anórexíu og gat ekki borðað. Fjölskyldan hafði, að sögn O'Leary, reynt fjölda leiða í sálfræðimeðferð fyrir stúlkuna en engin þeirra borið árangur. Hún var ítrekað lögð inn á spítala eftir sjálfsmorðstilraunir og um tíma var henni haldið sofandi til þess að gefa henni næringu í æð.

Eftir að beiðni fjölskyldunnar um raflostmeðferð við geðsjúkdómum þeim sem hrjáðu stúlkuna var hafnað var ákveðið að færa sjúkrarúm inn á heimili hennar þar sem hún hætti endanlega að nærast og lést að lokum.

mbl.is