May hættir sem formaður Íhaldsflokksins

Theresa May forsætisráðherra Bretlands hættir sem formaður Íhaldsflokksins í dag.
Theresa May forsætisráðherra Bretlands hættir sem formaður Íhaldsflokksins í dag. AFP

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hættir formlega sem leiðtogi Íhaldsflokksins í dag. Hún mun hins vegar sitja áfram sem forsætisráðherra þar til eftirmaður hennar hefur verið valinn.

Hálfur mánuðir er nú frá því May tilkynnti afsögn sína og sagði hún við sama tilefni að sér væri mikil eftirsjá í því að hafa ekki getað lokið útgönguferlinu.

Ellefu þingmenn Íhaldsflokksins, níu karlar og tvær konur, hafa gefið kost á sér í formannsembættið og þar af leiðandi sem næsti forsætisráðherra Bretlands.

Ekki er útilokað að fleiri eigi eftir að gefa kost á sér, en framboðsfresturinn rennur út klukkan 17 á mánudag.

BBC segir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu hafa litað formannstíð May, sem og mislukkaðar tilraunir hennar til að koma útgöngusamningi í gegnum breska þingið, en Íhaldsflokkurinn er klofinn í afstöðu sinni til útgöngunnar.

Bretland átti upphaflega að yfirgefa Evrópusambandi 29. mars á þessu ári. Útgöngunni var svo frestað til 12. apríl og loks til 31. október.

Þegar May tilkynnti afsögn sína kvaðst hún hafa gert allt sem í hennar valdi stæði til að fá þingmenn til að samþykkja útgöngusamninginn. Það yrði hins vegar nú að vera hlutverk nýs forsætisráðherra að ljúka útgönguferlinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert