Létust vegna listeríu í samloku

Tveir hinna látnu voru sjúklingar á Manchester Royal Infirmary sjúkrahúsinu.
Tveir hinna látnu voru sjúklingar á Manchester Royal Infirmary sjúkrahúsinu. Ljósmynd/Wikipedia.org

Þrír sjúklingar í borgunum Liverpool og Manchester á Englandi hafa látist vegna listeríu-sýkingar sem rakin hefur verið til innpakkaðra samloka. Heilbrigðismálayfirvöld í Englandi segja hina látnu vera á meðal sex einstaklinga sem sýktust af bakteríunni.

Tveir sjúklinganna lágu inni á spítala í Manchester-borg á meðan sá þriðji var í Liverpool-borg sem er um það bil 55 kílómetrum vestur af Manchester.

Samlokur og salöt frá matarkeðjunni „The Good Food“ hafa verið tengdar við sýkingarnar og verið afturkallaðar. Þá hefur framleiðslu sömuleiðis verið hætt. Yfirvöld staðfestu við BBC að vörurnar hafi verið fjarlægðar af spítölunum tveimur þar sem sýkingarnar áttu sér stað.

Eftir því sem fram kemur á vef BBC voru sjúklingarnir alvarlega veikir þegar þeir sýktust. Ekki hefur verið staðfest hvenær nákvæmlega þeir féllu frá, en fyrstu einkenni komu fram 25. apríl og tilkynnt var um nýlegasta tilfellið 15. maí.

Nick Phin, fulltrúi forstöðumanns Smitvarnarstofnunnar Englands sagði við BBC að engin tilfelli utan sjúkrahúsa hafa verið tilkynnt og að almenningi stafi lítil hætta af bakteríunni.

Seljandi kjötvaranna sem notaðar voru í samlokunum hefur stöðvað framleiðslu á vörum sínum eftir að vörurnar voru prófaðar og staðfest var að í þeim væri að finna listeríu.

 Hvað er listería?

Listería er baktería sem getur valdið ákveðinni gerð af matareitrun. Á vef embættis Landlæknis kemur fram að bakterían valdi nánast aldrei sjúkdómi hjá fullfrísku ungu fólki þrátt fyrir að það neyti matvæla sem eru menguð með bakteríunni, en að aldraðir, sjúklingar og nýfædd börn séu næmari fyrir henni.

Oft eru einkennin mild og hverfa innan nokkurra daga og hægt er að meðhöndla sýkinguna með sýklalyfjum.

Í umræddum tilfellum var þó um alvarlega veikt fólk að ræða og í slíkum tilfellum er mun meiri hætta á alvarlegri sýkingu sem getur breiðst út til heilans og í blóðið. Árið 2017 voru 33 dauðsföll á Englandi og í Wales sem hægt var að rekja til listeríu.

Listeríu er að finna í ýmsum matvælum á borð við ostum, tilbúnum samlokum og salötum og kjötáleggi. Er fólki ráðlagt að geyma matvæli í kæliskápum, elda hrá matvæli nægilega vel og ekki neyta matvæla eftir fyrningardag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert