Segja stúlkum að láta sig dreyma

Bandaríska landsliðið mætir til leiks á HM í myndbandinu.
Bandaríska landsliðið mætir til leiks á HM í myndbandinu. Ljósmynd/skjáskot

Íþróttakonur hafa almennt ekki fengið mikla athygli frá auglýsingarrisum í gegnum tíðina en í aðdraganda áttunda heimsmeistaramóts kvenna í knattspyrnu virðast hlutirnir vera að breytast. Ný auglýsing íþróttarisans Nike sendir skýr skilaboð; ekki breyta draumum þínum. Breyttu heiminum.

Auglýsingin er þriggja mínútna löng og var frumsýnd á úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu um síðustu helgi.

Auglýsingin hefst með ungri knattspyrnukonu leiða hollensku stjörnuna Lieke Martens inn á leikvanginn. En þegar leikurinn hefst og stúlkan ætlar að fara af vellinum grípur Martens aftur í hönd hennar og segir „þú ert ekki búin.“

Auglýsingin heldur áfram og sýnir drauma stúlkunnar um að spila knattspyrnu með fyrirmyndum sínum víðs vegar um heiminn í framtíð þar sem kvennaknattspyrna vekur sömu athygli og aðdáun og karlaknattspyrna hefur alltaf fengið.

Má meðal annars sjá tölvuleik um kvennaknattspyrnu slá öll sölumet og metfjölda taka á móti kínverska kvennalandsliðinu við heimkomu.

Myndbandið er fjörugt og sterkt og birtast margar af skærustu stjörnum kvennaboltans, á borð við hina áströlsku Sam Kerr og brasilísku Andressu Alves, í því. 

Fyrir tæplega mánuði síðan gaf Nike út annað auglýsingamyndband undir frásögn tenniskonunnar Serenu Williams sem er ekki síður áhrifamikið en það sendir skilaboð til ungra íþróttakvenna að deila draumum sínum.

„Stærstu draumarnir eru þeir sem búa til milljón í viðbót,“segir í myndbandinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert