Harvard afturkallar skólavist aðgerðasinna

Kyle Kashuv á leiðtogaráðstefnu Samtaka bandarískra skotvopnaeigenda (NRA).
Kyle Kashuv á leiðtogaráðstefnu Samtaka bandarískra skotvopnaeigenda (NRA). AFP

Harvard-háskóli hefur afturkallað skólavist Kyle Kashuv, 18 ára drengs sem er einn eftirlifenda skotárásarinnar í Parkland í Flórída fyrir um ári. Kashuv er helst þekktur fyrir að vera eitt fárra fórnarlamba árásarinnar, ef ekki það eina, sem síðar hefur gerst ötull talsmaður fyrir réttindum skotvopnaeigenda.

Flest skólasystkin hans sem komust lífs af úr árásinni hafa síðar helgað sig baráttunni fyrir hertri skotvopnalöggjöf, og hefur nafn Emmu Gonzales, farið þar hæst. BBC greinir frá.

Ástæða þess að umsókn Kyle Kashuv var afturkölluð er þó ekki umdeild afstaða hans til skotvopalöggjafar heldur rasísk ummæli sem hann lét falla á netinu fyrir tveimur árum, þegar hann var 16 ára.

Ummælin sem um ræðir féllu í SMS-skilaboðum, Skype-samtölum og í Google docs-skjölum bekkjarfélaga á netinu og innihéldu meðal annars hótanir í garð gyðinga og móðgandi tilvísanir í þeldökka Bandaríkjamenn.

Kashuv hefur ítrekað beðist afsökunar á ummælunum og segir þeim hafa verið ætlað að vera eins „ýkt og hneykslanleg og mögulegt [væri]“. Hann hafi síðar þroskast til muna.

„Ef einhver stofnun ætti að skilja þroska væri það Harvard, sem litið er til sem fyrirmyndarháskóla þrátt fyrir misjafna fortíð,“ ritar Kashuv á Twitter og bætir við: „Gegnum söguna hefur Harvard haft á að skipa þrælaeigendum, aðskilnaðarsinnum, ofstækismönnum og gyðingahöturum. Ef Harvard lítur svo á að ekki sé hægt að þroskast og að fortíð okkar skilgreini framtíðina þá er Harvard í eðli sínu rasísk stofnun. En ég trúi því ekki.“

Líkt og margir aðrir háskólar áskilur Harvard sér réttinn til að afturkalla nýsamþykkta skólavist  áður en nemendur hefja nám við skólann, til dæmis ef einkunnir nemenda lækka til muna í lok framhaldsskólanáms eða ef upp kemst um ámælisverða hegðun nemenda.

Tíu boð um skólavist voru til að mynda afturkölluð árið 2017 vegna grófra og rasískra skilaboða sem send voru inn á lokaðan Facebook-hóp, að því er fram kemur í skólablaði Harvard-háskóla, Harvard Crimson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert