Handtekin fyrir að bjarga flóttafólki

Carola Rackete skipstjóri björgunarskipsins Sea Watch 3 var leidd frá …
Carola Rackete skipstjóri björgunarskipsins Sea Watch 3 var leidd frá borði. AFP

Carola Rackete skipstjóri björgunarskipsins Sea Watch 3 var handtekinn um leið og hún sigldi með flóttafólk til hafnar á eyjunni Lampedusa í gærkvöldi. Um borð voru 40 flóttamenn og sigldi hún með þá til lands þrátt fyrir bann ítalskra stjórnvalda. 

Ítölsk yfirvöld með Matteo Salvini innanríkisráðherra í fararbroddi tekur hart á aðgerðum björgunarskipa með flóttafólk innanborðs sem vilja sigla til hafnar á Ítalíu. Rackete hafði átt í samskiptum við ítölsku strandgæsluna sem meinuðu henni að leggjast að bryggju. Loks var henni nóg boðið þar sem heilsu flóttafólksins var farið að hraka og sigldi hún því til lands þrátt fyrir mótmæli strandgæslunnar. 

Hún gæti átt yfir höfði sér 3 til 10 ára fangelsisvist fyrir þetta ólöglega athæfi. Hún mótmælti ekki handtökunni og var ekki leidd í járnum í lögreglubifreið við handtökuna. Óvíst er hvað verður um flóttafólkið sem er enn um borð í skipinu. 

Atvikið var tekið upp á myndband og því dreift á samfélagsmiðlum. Fjölmargir fordæma aðgerðir ítalskra stjórnvalda og krefjast þess að Rackete verði látin laus sem fyrst.

 


 
 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert