Stríðsglæpamaður eða úrvalsdáti?

Málið gegn Gallagher hófst eftir að sex undirmanna hans í …
Málið gegn Gallagher hófst eftir að sex undirmanna hans í hernum létu yfirmenn innan sjóhersins vita af því að Gallagher hefði, er hann var við skyldustörf í Mosul í Írak árið 2017, skotið á unga stúlku og gamlan mann með leyniskytturiffli og myrt táningspilt úr röðum Ríkis íslams sem var í haldi hersins, með því að stinga hann, meðal annars í hálsinn. AFP

Edward Gallagher, undirforingi í úrvalssveit bandaríska sjóhersins, Navy SEAL, var í síðustu viku sýknaður af ákæru um morð og stríðsglæpi, eftir ótrúleg réttarhöld þar sem lykilvitni í málinu sneri við fyrri vitnisburði sínum gegn undirforingjanum.

Gallagher var einungis fundinn sekur um eitt af þeim atriðum sem hann var ákærður fyrir – en það var að láta taka mynd af sér og fleiri hermönnum með líki ungs vígamanns hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki. Hann var sýknaður af því að hafa myrt piltinn, sem var á táningsaldri.

Fyrir brot sitt var Gallagher dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi, sem hann hafði þegar tekið út og rúmlega það í formi gæsluvarðhalds, en þar hafði hann setið frá því í september. Þá var hann lækkaður í tign og kaup hans lækkað tímabundið.

Viðbrögð við þessari niðurstöðu hafa verið nokkuð blendin, svo ekki meira sagt. Sumir hafa glaðst, þeirra á meðal Donald Trump Bandaríkjaforseti sem tísti sérstaklega Gallagher og fjölskyldu hans til stuðnings eftir að dómur féll, en hafði áður gefið út að hann myndi mögulega náða hann, yrði hann fundinn sekur.

Auk stuðnings frá forsetanum sjálfum hefur undirforinginn notið stuðnings margra þingmanna Repúblikanaflokksins og bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar Fox.

Yfirmenn í sjóhernum hafa hins vegar sagt fjölmiðlum í skjóli nafnleyndar að þeir óttist að niðurstaða þessa máls verði til þess að færri ungir liðsmenn SEAL-sveitanna muni þora að stíga fram gegn yfirmönnum sínum, jafnvel þótt þeir gerist sekir um stríðsglæpi.

Dave Philipps, blaðamaður New York Times, ræddi þetta mál í hlaðvarpsþættinum The Daily fyrr í vikunni. Hann sagði að það varpaði ljósi á að innan SEAL-úrvalssveita bandaríska hersins væru hið minnsta tveir ólíkir hópar hermanna, annars vegar „sjóræningar“, þrautreyndir hermenn sem stæðu þétt saman og væru komnir á vígvöllinn til þess að drepa hryðjuverkamenn með öllum tiltækum ráðum og hins vegar þeir sem „sjóræningjarnir“ kölluðu „skátana“ – ungir hermenn sem vildu gera allt eftir bókinni og fylgja siðareglum til hins ýtrasta.

Undirmenn óttuðust gjörðir hans

Málið gegn Gallagher hófst eftir að sex undirmanna hans í hernum létu yfirmenn innan sjóhersins vita af því að Gallagher hefði, er hann var við skyldustörf í Mosul í Írak árið 2017, skotið á unga stúlku og gamlan mann með leyniskytturiffli og myrt táningspilt úr röðum Ríkis íslams sem var í haldi hersins, með því að stinga hann, meðal annars í hálsinn.

Samkvæmt því sem fram kom í upprunalegum vitnisburði hermanna gegn undirforingjanum voru þeir byrjaðir að hafa svo miklar áhyggjur af hegðun Gallagher og öryggi almennra borgara hans vegna að þeir áttu við riffil hans til þess að gera hann ónákvæmari og fundu sig knúna til þess að skjóta viðvörunarskotum upp í loftið er þeir voru á ferðinni, svo að almennir borgarar gætu náð að flýja áður en hann léti til skarar skríða gegn þeim.

Bandarískur hermaður við eftirlit í þorpinu Ali Rash nærri Mosul. …
Bandarískur hermaður við eftirlit í þorpinu Ali Rash nærri Mosul. Mynd úr safni. AFP

„Þeir sögðu að þeir hefðu eytt meiri tíma í að vernda almenna borgara en að berjast gegn Ríki íslams,“ sagði Joe Warpinski, rannsakandi hjá glæparannsóknardeild bandaríska sjóhersins, NCIS, við undirbúningsréttarhöld í málinu í nóvember síðastliðnum, skömmu eftir að ákæra var gefin út.

Undirmenn Gallagher hafa einnig rætt við fjölmiðla um það hvernig undirforinginn hagaði sér í ferðum sínum til átakasvæða í Mið-Austurlöndum. Hann er sagður hafa gortað af þeim fjölda fólks sem hann hefði drepið í átökum í Afganistan og Írak undanfarin ár.

Sagður hafa myrt piltinn á kaldrifjaðan hátt

Tveir liðsmenn SEAL-sveitar Gallaghers lýstu því fyrir saksóknurum sjóhersins að sjúkraliði hefði verið að hlúa að sárum ungs vígamanns úr röðum ISIS, sem hefði verið tekinn til fanga. Þá hefði Gallagher gengið að honum án þess að segja orð og stungið unga ISIS-liðann í hálsinn og síðuna, með þeim afleiðingum að hann lét lífið.

Í kjölfarið bað Gallagher svo um að tekin yrði mynd af honum, hersveit hans og líki vígamannsins, þar sem hann hélt höfði piltsins upp að sínu og hélt sömuleiðis á hnífnum sem hann var sagður hafa notað til þess að fremja ódæðið.

Samkvæmt ákæru í málinu, sem AFP fjallaði um á sínum tíma, var nokkrum undirmönnum Gallaghers ofboðið vegna þessa atviks og annarra. Þeir reyndu oft að láta yfirboðara hans vita af meintum stríðsglæpum hans, en án árangurs.

Margir þeirra sögðu við saksóknara sjóhersins að þeim hefði verið tjáð að þeir gætu átt hefnd í vændum ef þeir gerðu gjörðir hans opinberar, ferill þeirra gæti verið í hættu og þar fram eftir götunum. Að lokum fundu þeir þó hærra settan hermann sem sá ástæðu til þess að vísa kvörtunum þeirra áfram.

Chris Czaplak, saksóknari sjóhersins, sagði er ákæra var gefin út að Gallagher hefði fært ISIS himnabrauð í formi áróðurs með gjörðum sínum með því að ákveða að „haga sér eins og skrímslið sem hryðjuverkamennirnir saka okkur um að vera“. Saksóknarar töldu sig vera með sterkt mál í höndunum, byggt á traustum og samhljóma frásögnum undirmanna Gallagher.

Sjúkraliðinn tók á sig sök

Réttarhöldin hófust við herdómstól í San Diego í lok maímánaðar. 20. júní varð algjör vendipunktur í málinu, þegar saksóknarar fengu sjúkraliðann Craig Scott til þess að koma fyrir réttinn.

Hann naut friðhelgi fyrir dómstólnum, eins og mörg önnur vitni í þessu máli, og gat því verið viss um að hann ætti ekki yfir höfði sér refsingu, sama hvað hann segði dómnum.

Skemmst er frá því að segja að Scott gjörbreytti vitnisburðinum sem hann hafði áður gefið í sex viðtölum sínum við saksóknara sjóhersins og sagði, samkvæmt endursögn New York Times úr réttarsal, að Gallagher hefði vissulega stungið táninginn í hálsinn, en að sárið sem af hlaust hefði ekki virst lífshættulegt. Í kjölfarið, þegar Gallagher gekk í burtu, hefði Scott svo sjálfur banað táningnum, með því að kæfa hann.

Gallagher fagnar hér niðurstöðu herdómstólsins síðasta miðvikudag ásamt eiginkonu sinni …
Gallagher fagnar hér niðurstöðu herdómstólsins síðasta miðvikudag ásamt eiginkonu sinni Andreu. AFP

„Ég vissi að hann var að fara að deyja hvort sem er og vildi bjarga honum frá því að vakna og mæta þeim aðstæðum sem hann var í,“ sagði Scott og bætti við að íraskir hermenn, sem börðust í Mosul við hlið Bandaríkjamanna, hefðu stundað það að pynta og drepa ISIS-liða sem voru í haldi.

Saksóknarar sjóhersins voru gáttaðir og ævareiðir, enda hafði Scott aldrei minnst á það einu orði að hann hefði ákveðið að lina þjáningar táningspiltsins með því að kæfa hann í svefni.

„Þú getur staðið þarna uppi og logið til um hvernig þú drapst fangann svo að Gallagher undirforingi þurfi ekki að fara í fangelsi,“ sagði saksóknarinn Brian John í réttarsalnum.

Scott leit þá í áttina Gallagher, þar sem hann sat í réttarsalnum, og sagði hann eiga konu og börn. „Ég held að hann ætti ekki að eyða því sem hann á eftir ólifað í fangelsi,“ sagði Scott, en það var á grundvelli þessa vitnisburðar sem Gallagher var sýknaður af kviðdómnum.  Verjendur hans höfðu sagt að þetta mál snerist ekki um morð eða stríðsglæpi, heldur „uppreisn“ af hálfu undirmanna Gallagher sem vitnuðu gegn honum.

Vitnisburður sjúkraliðans stangaðist á við vitnisburði annarra hermanna, sem sögðu að Gallagher hefði gengið hreint til verks er hann stakk vígamanninn unga í hálsinn, tvisvar eða þrisvar sinnum, áður en hann kallaði alla hersveitina til hópmyndatöku með líkinu.

Undirmenn hans vitnuðu til um að síðar sama dag hefðu þeir reynt að ræða atvikið við Gallagher, en að undirforinginn hefði svarað þeim fullum hálsi.

Dylan Dille, einn SEAL-liðanna, sagði fyrir dómi að Gallagher hefði svarað honum þeim orðum að þetta hefði „bara verið ISIS-drullusokkur“ og að næst þegar hann hygðist drepa mann með sambærilegum hætti myndi hann gera það þar sem enginn sæi til, svo að undirmenn hans þyrftu ekki að hafa áhyggjur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert