Verða að taka aftur við þýskri konu

Konur og börn í al-Hol-flóttamannabúðunum í Sýrlandi. Þýskur dómstóll hefur …
Konur og börn í al-Hol-flóttamannabúðunum í Sýrlandi. Þýskur dómstóll hefur gert þarlendum yfirvöldum að taka aftur við þýskri konu og börnum hennar sem dvelja í búðunum. AFP

Dómstóll í Berlín hefur úrskurðað að þýskum stjórnvöldum beri að taka aftur við þýskri konu og þremur börnum hennar úr flóttamannabúðum í Sýrlandi. Eiginmaður konunnar er talinn hafa verið liðsmaður vígasamtakanna Ríkis íslams.

Sagði í dómsúrskurðinum að börnin myndu þjást væri þeim gert að dvelja áfram í al-Hol-flóttamannabúðunum. BBC greinir frá.

Þetta er fyrsti dómsúrskurður þessa efnis sem fellur í Þýskalandi, en fjölskylda konunnar fór í mál við þýska utanríkisráðuneytið eftir að það neitaði að aðstoða konuna við að snúa aftur heim.

Fram til þessa hafa þýsk yfirvöld verið tilbúin að taka við hluta þeirra þýsku barna sem nú dvelja í flóttamannabúðum og hafa þau fengið að koma til Þýskalands án mæðra sinna, þar sem yfirvöld óttast að þýsku samfélagi kunni að stafa hætta af konunum.

Í þessu tilfelli sagði dómstóllinn „aðgerðaleysi“ fela í sér að börnin þrjú stæðu frammi fyrir „alvarlegum, ósanngjörnum og óumflýjanlegum erfiðleikum“.

Þýska dagblaðið Süddeutsche Zeitung segir börnin vera 2, 7 og 8 ára gömul.

Fjöldi sambærilegra mála er sagður bíða afgreiðslu hjá þýskum dómstólum. Tugir þýskra kvenna sem taldar eru hafa gifst vígamönnum eru enn í Sýrland og 100 börn hið minnsta, sem búa við slæmar aðstæður í flóttamannabúðum.

Þeir karlar sem snúa aftur til Þýskalands eftir að hafa gengið til liðs við Ríki íslams eru nær undantekningalaust viðfangsefni sakamálarannsóknar. Saksóknarar hafa hins vegar farið varlegar í að ákæra konurnar.

mbl.is